Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir taka þátt í norrænu samstarfi kvenna í sk…
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir taka þátt í norrænu samstarfi kvenna í skógrækt. Hér eru þær í heimsókn í viðarvinnslu fyrirtækisins Norske Skog Saugsbrug. Mynd: ESO

Samstarfsverkefni sem Skógræktin tekur þátt í hlaut norrænan jafnréttisstyrk

Norræn upplýsingamiðstöð um kynja­jafn­rétti, NIKK, úthlutaði í dag styrk til verkefnis sem Skógræktin tekur þátt í ásamt norsku samtökunum Kvinner i skogbruket, Spill­kråkan í Svíþjóð og norsku háskóla­stofn­uninni KUN.

Á leiðinni yfir í græna hagkerfið er nauð­syn­legt fyrir skógargeirann að beita ný­sköpun og nýrri hugsun. Þá er þörf á fjöl­breytilegri þekkingu og reynslu. Hingað til hefur skógargeirinn verið karlagrein að mestu en með þessu verkefni er markmiðið að virkja fleiri konur og ungt fólk til að hasla sér völl á þessu sviði.

Kvinner i Skogbruket i Norge eru samtök kvenna í skógrækt í Noregi og Spillkråkan í Svíþjóð eru samtök kvenna meðal skógareigenda í Svíþjóð. Verkefnið sem Skógræktin tekur þátt í ásamt þessum samtökum er hugsað sem undirbúningur fyrir stærra verkefni sem ætlunin er að verði ráðist í á næsta ári. Með í þessu starfi er einnig norska stofnunin KUN, háskólastofnun sem starfar að jafnréttismálum og samfélagsfjölbreytni.

Undirbúningsverkefni þetta hlaut ríflega 850 þúsund króna styrk sem varið verður til að tefla saman fulltrúum áður­nefndra samtaka og stofnana á þriggja daga vinnufund í nóvember þar sem rætt verður hvernig efla megi samstarf Norðurlandanna um þessi efni. Markmiðið er að leggja drög að viðameiri norrænum viðburði sem haldinn verði á næsta ári.

Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógar­auð­linda­sviðs, verða fulltrúar Skógræktarinnar í þessu undirbúningsverkefni. Jafnvel þótt hlutfall kvenna í starfsmanna­hópi Skógræktarinnar hafi farið hækkandi á undanförnum árum er enn verk að vinna því konur eru aðeins um fjórð­ungur í starfsmannahópi Skógræktarinnar.

Texti: Pétur Halldórsson