Að frumkvæði verkefnisins Lesið í skóginn og Náttúruskólans hittust leiðbeinendur í útinámi í Reykjavík á Jafningjafræðslunámskeiði í grenndarskógi Ártúnsskóla þann 15. október s.l. og miðluðu reynslu sinni.

Settar voru upp 4 stöðvar að þessu sinni sem allir fóru í gegnum. Þar kynntust þátttakendur tálgutækni og ferskum viðarnytjum undir stórn Ólafs Oddssonar verkefnisstjóra LÍS, skapandi aðferðum í útinámi undir stjórn Helenu Óladóttir verkefnisstjóra Náttúruskólans, víkingaleikjum sem Óttarr Hrafnkelsson hjá Ylströndinni stjórnaði og ævintýrum og ullarvinnu með Auði Óskarsdóttir hjá Grasagarðinum í Laugardal. Rannveig Andrésdóttir skólastjóri Ártúnsskóla tók á móti hópnum og kynnti fyrir honum hvernig skólinn nýtir skóginn í skólastarfi.

Þátttakendur voru ánægðir með að fá tækifæri til að kynnast störfum hvers annars í útinámsfræðslunni sem í boði hefur verið fyrir leik- og grunnskóla í borginni á liðnum árum. Fyrirhugað er að halda annað námskeið fljótlega og fara í gegnum fleiri þætti útinámsins.


frett_23102009(3)


Texti og myndir: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógaræktar ríkisins