Skógrækt ríkisins framleiðir umtalsvert magn arinviðar. Viðurinn er bæði seldur til einstaklinga á bensínstöðum og í nokkrum blómaverslunum, auk þess sem hann er notaður við að eldbaka pizzur.

Margir kaupa viðinn til að benna í arni á köldum vetrarkvöldum, sérstaklega í kringum jólin. Skógrækt ríkisins býður upp á tvenns konar íslenskan arinvið: birki og barrvið. Nota má allar tegundir trjáa sem arinvið en eiginleikar tegunda eru örlítið mismunandi. Í öllum tilfellum er best að viðurinn sé þurr, þ.e. hafi rakastig undir 20%. Til að ná þessu rakastigi er nóg að kljúfa viðinn veturinn fyrir notkun og geyma hann sumarlangt á þurrum stað. Keyptan arinvið er því mikilvægt að geymda ekki úti þar sem hann getur blotnað. Ef viðurinn er rakur, þ.e. með rakastig hærra en 20%, eiga sumar barrtegundir það til að skjóta neistum. Því er gott að gæta fyllsta öryggis og hafa einhvers konar grind framan við opin eldstæði til að koma í veg fyrir að glóð sem kann að hrökkva úr eldstæðinu fari fram á gólf.