Framkvæmdastjóri Sólskóga greinir aukinn áhuga á íslenskum jólatrjám

Rétt meðhöndlun jólatrjáa er mikilvæg svo að trén haldi sér vel alla jólahátíðina. Mikilvægast er að trén fái nægt vatn fyrstu tvo sólarhringana eftir að þau koma í hús. Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sólskóga í Kjarnaskógi, segir í viðtali á sjónvarpsstöðinni N4 að áhugi kaupenda á íslenskum jólatrjám virðist vera að aukast. Hún selur m.a. fjallaþin úr Hallormsstaða­skógi.

Það sem helst bregst hjá fólki, að sögn Katrínar, er að þess sé ekki nægilega vel gætt að ekki þorni á trjánum. Nauðsynlegt sé að einhver fylgist vel með vatns­stöð­unni í jólatrés­fætinum. Trén drekki mjög mikið fyrstu einn til tvo sólarhringana en lítið eftir það. Hún ráðleggur fólki að saga svolítið neðan af trénu og jafnvel að stinga því í heitt vatn svolitla stund áður en það er sett í fótinn.

Katrín segist ekki upplifa það sem stundum sé rætt um að fólk sé að snúa sér æ meira að gervijólatrjám eða jafnvel að hætta að setja upp jólatré heima. Sólskógar selja árlega á bilinu 900-1000 jólatré og Katrín telur að áhugi fólks á jólatrjám sem ræktuð eru á Íslandi sé að aukast. Þótt nordmannsþinurinn sé enn algengasta jólatréð sé stafafuran að vinna á. Sólskógar selja líka íslenskan þin, fjallaþin frá Hallormsstað, rauðgreni og blágreni.