Íslensku könglunum er pakkað í visthæfar pappaumbúðir úr skógarefni. Verkefnið er unnið í samvinnu v…
Íslensku könglunum er pakkað í visthæfar pappaumbúðir úr skógarefni. Verkefnið er unnið í samvinnu við fangelsin. Ljósmynd: Harpa Dís Harðardóttir

Komnir eru á markað í umhverfisvænum neytendaumbúðum íslenskir jólakönglar sem henta vel í jólaskreytingar. Fáanlegir eru könglar af lerki, stafafuru og rauðgreni og þeim er pakkað inn í visthæfar umbúðir úr pappa sem er skógarefni. Sömuleiðis eru seldar jólagreinar. Þessar vörur eru afrakstur samstarfs Skógræktarinnar og fangelsanna.

Jólagreinar af íslenskum trjám, tilvaldar á útihurðina, leiðið eða í aðrar skreytingar fyrir jólin. Ljósmynd: Harpa Dís HarðardóttirFrumkvæðið átti starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi sem sá ofsjónum yfir innfluttum könglum í plastpokum sem seldir hafa verið í stórum stíl hérlendis undanfarin ár. Þau sáu að hægt væri að nýta mikið magn af könglum sem fellur til hjá Skógræktinni á hverju ári þegar fræi er safnað til skógarplöntuframleiðslu. Ekki fellur síst til mikið af furukönglum sem eru sérlega hentugir í skreytingar, sterkir og laglegir.

Þetta er umhverfisvænt samfélagsverkefni því könglunum er pakkað á Litla-Hrauni og þar eru greinar líka útbúnar greinar ásamt fleira skreytingaefni. Allt er þetta til sölu í Byko, Garðheimum og á markaði Farfugla í Laugardal í Reykjavík.

Starfsfólk Skógræktarinnar sá um að fara út í skóg og klippa greinar af nokkrum trjátegundum, blágreni, þin, stafafuru, birki og lerki. Greinabúntin má til dæmis nota til að hengja á útihurðina, sem leiðisskreytingar eða hvað annað sem henta kann að þykja.

Fjallað var um þetta ágæta verkefni í fréttum Stöðvar tvö og þar kom fram að fangarnir á Litla-Hrauni væru alsælir með verkefnin sem þeim voru falin með samstarfinu við Skógræktina.

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, með pakka af íslenskum jólakönglum. Ljósmynd: Stöð2/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Texti: Pétur Halldórsson