Furulúsin myndar hvíta þræði sem verða eins konar ull á greinum og stofni. Í þessa „ull“ verpir furu…
Furulúsin myndar hvíta þræði sem verða eins konar ull á greinum og stofni. Í þessa „ull“ verpir furulúsin eggjum sínum. Skjámynd úr myndbandinu

Skógræktin hefur gefið út myndband í samvinnu við HealGenCar og SNS þar sem fjallað er um tilraunir með ýmis kvæmi skógarfuru með tilliti til þess hversu mikið mótstöðuafl þær hafa fyrir furulús. Í ljós kemur að afkomendur þeirra fáu trjáa sem lifðu af lúsafaraldurinn á seinni hluta síðustu aldar verða síst fyrir barðinu á lúsinni.

Furulúsin Pineus pini var mikill vágestur í skógrækt á Íslandi eftir miðja síðustu öld. Skógarfura var gróðursett í stórum stíl víða um land eftir seinna stríð og var þá ein helsta vonarstjarnan í nytjaskógrækt á Íslandi. Það breyttist á tiltölulega skömmum tíma þegar lúsin barst til landsins og fór að herja á tegundina. Skógarfuran drapst að verulegu leyti af völdum lúsarinnar og í ríflega hálfa öld hefur ekki verið litið á skógarfuru sem vænlegt skógartré hérlendis.

Ekki drápust þó öll trén og stöku fura stóðst faraldurinn allvel, jafnvel svo að sums staðar hafa vaxið upp myndarleg skógarfurutré. Þar með urðu væntanlega eftir þau tré sem mest mótstöðuafl höfðu fyrir lúsinni. Fram fór öflugt náttúruval. Fyrir nokkrum árum var lögð út tilraun með skógarfuru til að sjá hvort fengin reynsla og nýjar aðferðir gætu gefið nýja von um ræktun skógarfuru hérlendis. Helstu niðurstöður þeirrar tilraunar sýna að þær skógarfurur sem sprottnar eru af fræi þeirra trjáa sem lifað hafa af á Íslandi eru sterkastar. Önnur kynslóð skógarfuru er vöxtuleg og þolir lúsina betur en innfluttur efniviður skógarfuru.

Níðhöggur skógarfuru

Í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út segja tveir sérfræðingar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, Brynja Hrafnkelsdóttir og Lárus Heiðarsson, frá umræddri tilraun þar sem reynd voru skógarfurukvæmi frá Noregi, Finnlandi, Rússlandi, Skotlandi og Austurríki, auk afkomenda skógarfurutrjáa sem gróðursett voru hér á landi um og upp úr miðri síðustu öld og hafa sýnt mótstöðu gegn furulúsinni. Titill myndbandsins er Furulúsin - Níðhöggur skógarfuru. Níðhöggur var ormurinn í norrænu goðafræðinni sem nagaði rætur Asks Yggdrasils, trésins sem stendur upp um allan heiminn og nær til allra heimshluta.

Myndbandið er framleitt í samvinnu við SNS (Norrænar skógrannsóknir) og HealGenCar sem er tímabundinn samstarfsvettvangur um framhaldsrann­sóknir í skógarheilsu- og skóg­erfða­fræð­um til stuðnings líf­hagkerf­inu. HealGenCar rann raunar sitt skeið um síðustu áramót. Við keflinu tók annar samstarfsvettvangur sem kallast Tolerant Tree og á að fjalla um erfðavísindi trjáa og kynbætur í þá átt að skógartré þoli betur ýmsa áraun sem á þeim dynur með röskun loftslagsins (Genetics and management for stress tolerant trees for the future climate).

Framleiðandi myndbandsins er Kvikland. Hlynur Gauti Sigurðsson sá um upptökur en Kolbrún Guðmundsdóttir um samsetningu.

Texti: Pétur Halldórsson