Timburstæða í íslenskum nytjaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Timburstæða í íslenskum nytjaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Sérfræðingur í fjármálum fyrirtækja telur að mikil verðmætasköpun gæti falist í því fyrir íslenskt þjóðfélag ef skógarþekja á Íslandi yrði fimmfölduð á næstu 20 árum.  Slíkt gæti staðið undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun. Skapa megi snjalla atvinnugrein með fjölda starfa til framtíðar.

Um þetta skrifar Albert Þór Jónsson í Morgunblaðið 18. maí. Albert er viðskiptafræðingur með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði. Hann bendir á að verðmæti lands aukist verulega með aukinni skógrækt og öll ræktun í skjóli skóga verði hagkvæmari og verðmætari. Hér séu landkostir góðir og binda megi sem nemur því sem næst allri koltvísýringslosun Íslendinga ef hér væri 12% skógarþekja.

Grein Alberts Þórs Jónssonar er á þessa leið:

Mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað ef markmið rætast um að fimmfalda þekju skóga á Íslandi á næstu 20 árum og fara úr t.a.m. 1% í 6% af flatarmáli Íslands og ná þannig að standa undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun. Verðmæti lands eykst verulega með aukinni skógrækt, en öll ræktun í skjóli skóga verður hagkvæmari og verðmætari. Landsbyggðin á Íslandi er sannkallaður óslípaður demantur og það er ljóst að skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land. Það er ekki ólíklegt að vörslumönnum muni fjölga sem gæta ómetanlegra verðmæta sem eru í náttúru og náttúruauðlindum Íslands. Gæta þarf að mikilvægi sjálfbærrar þróunar sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind sem þjónar hagrænum umhverfismarkmiðum og lækkar samfélagskostnað. Landkostir til skógræktar á Íslandi eru miklir og mikilvægt að efla skógrækt sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum en talið er að 12% skógarþekja geti bundið sem samsvarar því sem næst losun á allri CO2 á Íslandi. Náttúruskógar voru meðal höfuðvistkerfa Íslands en þekja þeirra hefur rýrnað um 95% frá landnámi. Ósjálfbær nýting þeirra fram yfir 20. öld eyddi þeim að miklu leyti. Mikil tækifæri felast í því að gera skógrækt að sjálfbærum atvinnuvegi á Íslandi á næstu 15-20 árum sem skilar verulegum gæðum og ávinningi til samfélagsins. Ný hugsun í umhverfismálum og náttúruvernd gerir þetta mögulegt en auka þarf fjárveitingar til skógræktar. Þegar skógar komast á nýtingaraldur má vænta áhuga á skógarkaupum til fjárfestingar. Skógrækt ríkisins á um helming af þeim skógi sem er kominn í nýtingu en annað er í eigu skógræktarfélaga en mestur hluti ræktaðra skóga er frekar ungur. Fjárfesting í skógrækter langtímafjárfesting þar sem tekjur af skógræktinni byrja að skila sér eftir 15-20 ár. Mikil þekking á skógrækt hefur byggst upp hjá skógræktarfélögum landsins og mörgum bændum sem eru vörslumenn lands. Íslensk skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land og ekki er ólíklegt að störfum við skógrækt myndi fjölga verulega á landsbyggðinni. Ávinningur af stórfelldri skógrækt á Íslandi horft til framtíðar er augljós en leiða þarf saman helstu hagsmunaaðila sem geta komið hugmyndinni í framkvæmd. Hagsmunir Íslendinga eru miklir með því að efla skógrækt á Íslandi auk þess að vera góður fjárfestingakostur ef vel er staðið að málum.

Lifandi tré fjölgar lengi greinum

Stefna þarf á sjálfstæða þróun sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind sem þjónar hagrænum og umhverfistengdum markmiðum sem auka lífsgæði og velferð Íslendinga horft til langrar framtíðar. Markmið íslenskra lífeyrissjóða er að greiða lífeyri og ávaxta eignir á sem bestan hátt.

Ef skógræktarverkefni þar sem horft er til lengri tíma og ávöxtun með tilliti til áhættu er innan þeirra marka sem lífeyrissjóðir gera væri hægt að hefjast handa við stórfellda skógrækt á Íslandi í samstarfi íslenskra lífeyrissjóða, stjórnvalda, skógræktarfélaga og bænda um allt land. Þjóðarátak í skógrækt á Íslandi með aðkomu helstu aðila, s.s. stjórnvalda, opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, einkafyrirtækja og einstaklinga um allt land getur gert það mögulegt að hefja stórsókn í skógrækt og ná þannig metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir Ísland og Íslendinga. Ekki er ólíklegt að á næstu misserum verði hægt að fá marga til að bretta upp ermar í stað þess að bíða eftir úrræðum opinberra aðila á vinnumarkaði. Á næstu misserum mun skapast frábært tækifæri til að virkja landsmenn til eftirsóknar um allt land með ræktun skógar sem mun skila frábærum árangri til lengri tíma fyrir land og þjóð. Hægt er að skapa snjalla atvinnugrein með fjölda starfa til framtíðar ef vel er að málum staðið og lækka þannig samfélagskostnað og auka verðmætasköpun til langrar framtíðar. Skógrækt getur orðið ný atvinnugrein ef vel er að málum staðið þar sem mörg afleidd störf verða til í öðrum atvinnugreinum. Nýsköpun og snjallar hugmyndir sem tengjast skógrækt eru margar og því mikilvægt að hefja þessa mikilvægu vegferð í skógrækt fyrir Ísland og Íslendinga.

Grein Alberts Þórs Jónssonar í Morgunblaðinu 18. maí 2020