Íslenskt skógarbýli. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Íslenskt skógarbýli. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri hjá Skógræktinni, og Arnór Snorrason, sérfræðingur á rannsóknasviði, eru meðal höfunda greinar sem komin er út í Canadian Journal of Forest Research. Þar eru færð rök fyrir því að þær aðferðir sem notaðar hafa verið við skógrækt á lögbýlum hérlendis séu vænleg leið til að innleiða loftslagsvæna skógrækt í öðrum Evrópulöndum.

Aðalhöfundur greinarinnar er Stanislava Brnkalakova sem starfar við vísindaakademíu Slóvakíu og slóvakíska tækniháskólann. Niðurstöðurnar eru byggðar á rannsókn sem gerð var á íslenskum nýskógræktarverkefnum, skógrækt á lögbýlum.

Skógrækt er ein þeirra aðferða sem nú er litið til í baráttunni við loftslagsbreytingar og til aðlögunar að breytingunum. Loftslagsvæn skógrækt (Climate Smart Forestry) er viðurkennd aðferð til að ráðast í aðlögun að loftslagsbreytingum og mótvægisaðgerðir gegn þeim eins og meðal annars kemur fram með ýmsum hætti í stefnumiðum evrópskrar samvinnu.

Í greininni sem hér er rætt um er lýst framsækinni notkun á hvatakerfum til að liðka fyrir því að aðferðir loftslagsvænnar skógræktar verði teknar upp.  Hvatinn felst í því að verðmæti eru færð á milli kerfa í samfélaginu til að liðka fyrir verkefnum sem efla sameiginleg gæði og styrkja sameiginlega hagsmuni. Með slíkum tilfærslum er talað um að greitt sé fyrir vistkerfisþjónustu. Gott dæmi um þetta eru framlög hins opinbera á Íslandi til nýskógræktarverkefna á lögbýlum sem m.a. stuðla að bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu með sjálfbærum hætti.

Þetta graf úr greininni sýnir þróun nýskógræktarverkefna á Íslandi. A er fjöldi gróðursettra plantna, B er þróun stofnana og verkefna og C greiðslur til skógræktar á lögbýlum (vistkerfisþjónustu). Gögn úr SkógræktarritinuFærð hafa verið fyrir því rök að slíkar greiðslur fyrir vistkerfisþjónustu stuðli að skilvirkni loftslagsvænnar skógræktar og sjálfbærni til langs tíma, að því gefnu að viðkomandi verkefni séu í samhljómi við staðbundin, menningarleg og félagsleg gildi. Í rannsókninni var íslensk skógræktaráætlun tekin til skoðunar. Gerð var stofnanagreining á framlögum til skógræktar á lögbýlum og metin áhrif verkefnanna á vistkerfisþjónustu skóga og sjálfbærni til lengri tíma litið. Í greininni eru tíundaðar bráðabirgðaniðurstöður um hvernig loftslagsvæn skógrækt rímar við skógræktarverkefni á lögbýlum eins og þau hafa verið rekin á Íslandi undanfarin 30 ár. Við þetta mat á áhrifum greiðslna fyrir vistkerfisþjónustu, þ.e.a.s. framlaga til skógræktar á lögbýlum, reyndist mikilvægt að draga fram sjónarmið sérfræðinga, bæði á sviði skógræktar og stefnumörkunar ásamt sjónarmiðum skógarbændanna sjálfra sem taka þátt í verkefnunum.

Niðurstaða rannsóknarinnar var skýr. Skógræktarverkefni á lögbýlum sem rekin hafa verið undanfarin þrjátíu ár hafa jákvæð áhrif á lífsskilyrði viðkomandi bænda, efla verulega vistkerfisþjónustu skóga og styðja með skýrum hætti við alþjóðleg loftslagsmarkmið. Þátttaka og áhugi skógarbændanna skiptir sköpum fyrir sjálfbæra vistkerfisþjónustu skóga en er líka forsenda árangurs í slíkum verkefnum sem felast í greiðslum eða tilfærslum til vistkerfisþjónustu. Í niðurstöðum er einnig talað um að upplýsingagjöf, traust og styðjandi samstarf flýti fyrir innleiðingu loftslagsvænnar skógræktar og rannsóknin er sögð sýna fram á möguleikana sem felast í loftslagsvænni skógrækt fyrir Evrópulönd. Gagnlegt er talið að í frekari rannsóknum verði einnig litið til þátta sem snerta viðnáms- og aðlögunarþrótt samfélaga.

Greinin til niðurhals

Texti: Pétur Halldórsson