Feðgarnir Óskar Grönholm og Einar Óskarsson með keðjusögina sem Óskar fékk fyrir sigurinn í fyrsta h…
Feðgarnir Óskar Grönholm og Einar Óskarsson með keðjusögina sem Óskar fékk fyrir sigurinn í fyrsta heimsmeistaramótinu í keðjusagarkringlukasti. Mynd: forestry.com.

Keppt í keðjusagarkringlukasti á Elmia Wood skógarvörusýningunni

Óskar Grönholm skógvélamaður varð hlutskarpastur í keðjusagarkringlukasti á Elmia Wood skógarvörusýningunni sem haldin var í Svíþjóð á dögunum. Faðir hans, Óskar Einarsson, starfsmaður Skógræktarinnar, átti næstlengsta kastið. Því má segja að þeir séu fyrstu heimsmeistararnir í þessari nýju íþrótt.

Keppt var í fyrsta sinn í þessari grein á ElmiaWood-skógarvörusýningunni sem haldin er fjórða hvert ár í Svíþjóð. Á ensku er íþróttin kölluð „lumberjack frisbee“. Hún felst í stystu máli í því að skjóta viðarsneið eins langt og mögulegt er með keðjusög að vopni.

Sagt er frá þessu á vefnum forestry.com og þar kemur fram að Fredrik Reuter, sem rekur þennan vef og líka vefinn skogsforum.se, hafi fengið hugmyndina að þessari nýju íþrótt eitthvert sinn þegar hann stóð og grisjaði með kjarrsög í fjölskylduskógi sínum. Stundum hafi hann fengið af miklu afli í sköflunginn smábúta úr viðnum sem skutust af sagarblaðinu. Þá hafi honum dottið í hug að nota mætti þá krafta sem þarna væru að verki í eitthvað skemmtilegt, jafnvel einhvers konar keppni.

Keðjusagarskotfimi með viðarkringlu

Tekið var til við að smíða og sjóða og út úr þeirri vinnu kom forláta kasttæki sem sýnt var í bás Skogsforum á ElmiaWood-sýningunni. Kasttækið er knúið með keðjusög. Í sérstakan haldara er sett þunn, kringlótt viðarskífa sem keðjan skýtur fram á við. Brúnir og horn keðjunnar voru löguð til svo að sem mestur kastkraftur fengist úr henni og segja má með sanni að þetta hafi vakið athygli á sýningunni því eftir því sem fram kemur í frásögn forestry.com var biðröð við bás Skogsforum alla sýningardagana. Meira en 200 manns fengu að reyna hæfileika sína með tækið. Á kastvellinum voru strik sem mörkuðu vegalengd allt að 35 metrum sem virtist meira en nóg, allt þar til íslenski skógvélamaðurinn Óskar Grönholm kom sá og sigraði.

Ekki bara góðir í fótbolta

Óskar náði að skjóta viðarkringlu 38 metra og enginn stóð honum á sporði meðan á sýningunni stóð en næstur því komst faðir hans, Einar Óskarsson sem skaut fáeinum metrum skemmra en sonurinn. Segja má að þeir séu fyrstu heimsmeistararnir í þessari nýju keppnisgrein og á vefnum forestry.com segir að Íslendingar séu greinilega ekki bara góðir í fótbolta.

Daginn eftir að vörusýningunni lauk voru sigurvegaranum veitt verðlaun fyrir utan iðnaðarsafn Husqvarna sem er í bænum Huskvarna skammt frá Jönköping. Verðlaunin voru auðvitað forláta keðjusög og við afhendinguna sagði Óskar svolítið frá störfum sínum á Gremo-skógarhöggsvél hér á Íslandi. Skógrækt og skógarnytjar væru vaxandi grein á Íslandi og góðar afurðir kæmu nú út úr ræktuðu skógunum með þeim trjátegundum sem reynst hafa henta best til skógræktar á Íslandi.

Nánar um keðjusagarkringlukast

  • Nota þarf sérstakan útbúnað til að fyllsta öryggis sé gætt og svo niðurstöður séu marktækar
  • Skotið er 15-20 cm breiðri viðarskífu með keðjusög eins langt og mögulegt er
  • Keðjan í söginni er brýnd á sérstakan hátt svo kastkrafturinn verði sem mestur
  • Keðjusagarkringlukast var þróað hjá Skogsforum og forestry.com í Svíþjóð og fyrsta keppnin haldin á Elmia Wood 2017
  • 220 manns öttu kappi í fyrstu keppninni
  • Óskar Grönholm frá Íslandi sigraði og fyrsta opinbera metið er 38 metrar

Hér er loks skemmtilegt myndband sem sýnir gesti sýningarinnar spreyta sig í keðjusagarkringlukasti.

Myndband

Heimild: forestry.com
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson