Ewa Hermanowicz talar um nýskógrækt á Íslandi á Global Landscapes Forum ráðstefnunni í Bonn nú í vik…
Ewa Hermanowicz talar um nýskógrækt á Íslandi á Global Landscapes Forum ráðstefnunni í Bonn nú í vikunni.

National Geographic vill taka myndband um skógrækt á Íslandi til sýningar

Myndbandið Afforesting Iceland - A Cause for Optimism var sýnt á alþjóðlegu land­nýtingarráðstefnunni Global Landscapes Forum sem fram fór í Bonn í Þýskalandi. Það hefur hlotið mikla athygli á samfélags­miðlum og National Geographic hefur lýst áhuga á því að sýna myndbandið á stutt­myndaveitu sinni, National Geographic Short Film Showcase.

Líkt og í kjölfar fyrri loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna var haldin ráðstefna um landnýtingu í kjölfar nýafstaðinnar loftslagsráðstefnu í Bonn. Landnýtingar­ráðstefnan Global Landscapes Forum fór fram í Bonn 19.-20. desember og skiptist í marga hluta. Á málstofu fyrri daginn sem tekin var upp og streymd á vefnum lýsti Ewa Hermanowicz, sérfræðingur í samskiptamálum hjá EUFORGEN, í stuttu máli örlögum þeirrar gróður- og skógarþekju sem blasti við landnámsmönnum á Íslandi á sínum tíma, hvernig járnaldarfólkið sem byggði landið ruddi og brenndi skógana og beitti landið sem þannig varð berskjaldað fyrir roföflunum. Síðan var sýnt myndbandið góða sem Ewa gerði í sumar ásamt kvikmyndagerðarmönnum Duckrabbit, Afforesting Iceland - a Cause for Optimism.

Í umræðum að sýningunni lokinni var Ewa spurð út í þau andstæðu viðhorf sem væru uppi á Íslandi um hvort breyta ætti ásýnd landsins með skógrækt og hætta þar með á að skerða óhefta sýn fólks í allar áttir. Ewa svaraði því meðal annars til að jafnvel þótt framtíðarmarkmið sem sett hafa verið fram um 12% skógarþekju árið 2100 næðust yrði landið áfram að mestu skóglaust og nóg af skóglausum dölum og gróðurlausu landi samt. Sætta þyrfti þessi viðhorf svo hvort tveggja gæti gengið samhliða. Þjóðin þyrfti að geta ræktað nægilega skóga til að viðhalda landbúnaði, hamla gegn jarðvegseyðingu og fullnægja timburþörf sinni.


Á Twittersíðu EUFORGEN má sjá hvernig viðbrögð myndbandið fékk í kjölfar sýningar þess í Bonn. Þá skrifaði einn af kynningar­fulltrúum ráðstefnunnar frétt um það á vef Global Landscapes forum. Að málþinginu loknu fékk Ewa skeyti frá bandaríska landfræðitímaritinu National Geographic um að samþykkt hefði verið að sýna myndbandið á einum af miðlum þess, stuttmyndaveitunni National Geographic Short Film Showcase.

Greinilegt er því að þetta afbragðsgóða myndband þar sem Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri lýsir bágbornu ástandi Íslands og starfi Íslendinga að skógrækt hefur farið víða og vakið athygli á landinu okkar sem er eitt versta dæmið í öllum heiminum um skógareyðingu. Þetta er meðal árangursríkra verkefna sem Skógræktin hefur tekið þátt í á árinu sem er að líða.

Texti: Pétur Halldórsson