Eins og við sögðum frá í apríl gerði Suðurlandsdeild Skógræktar ríkisins tilraun með að ná safa úr birkitrjá í fyrra og ákveðið var að halda áfram með þessa tilraun nú í vor.

Birkisafa hefur verið safnað í þúsundir ára um allan heim, s.s. í Rússlandi, Kína, Japan og N-Ameríku.  Fyrr á tímum var safinn t.d. notaður í staðinn fyrir mjólk í bakstri en nú er birkisafinn aðallega notaður eftir að hafa verið soðinn niður í sýróp.

Heimildir eru fyrir því að í birkisafanum séu ýmis holl efni sem t.a.m. hafi góð áhrif á blóðþrýsting, dragi úr álagi á nýru, séu bólgueyðandi og blóðhreinsandi. Hvort sem menn finna fyrir lækningamætti safans eða ekki, þá hefur hann sætt og fínlegt bragð sem flestum finnst gott.

Það er hins vegar ekki vandalaust að ná sætum safanum úr birkitrjánum, því það er aðeins mögulegt í nokkrar vikur á ári. Birkisafanum, sem notaður hefur verið í þessari tilraun, hefur verið safnað úr 65 ára gömlum birkitrjám í Haukadal. Borað er í trén þegar brum byrjar að myndast á þeim á vorin, safinn látinn renna úr og holunum síðan lokað aftur. Hvert tré er svo hvílt í eitt til tvö ár á milli safatöku. Birkisafann þarf að meðhöndla rétt og helst hann aðeins ferskur í 5-6 daga í kæli, rétt eins og mjólk.

Þeir Morten Leth og Einar Óskarsson hafa haft veg og vanda af söfnun safans og tilraunum á notkun hans. Þeir hafa búið til birkivín sem þykir hafa tekist betur en í fyrri tilraunum og nú hafa þeir einnig búið til sérstakan birkisorbet, þ.e. vatnsís með birkibragði. Afar einfalt er að búa ísinn til eftir að birkisafanum hefur verið safnað og er uppskrift og aðferð sem hér segir:

frett_10072008_1

Birkisorbet – uppskrift

1 líter af ferskum birkisafa
150 gr sykur

Sjóðið birkisafann og sykurinn saman þar til u.þ.b. helmingur vökvans er eftir. Leyfið blöndunni af kólna og frystið síðan. Takið blönduna út þegar hún er orðin frosin og leyfið henni að bráðna dálítið svo mögulegt sé að skera hana í litla bita. Hrærið hálffrosna bitana saman þar til úr þeim verður hvítur massi en gætið þess að massinn bráðni ekki svo mikið að hann verði vatnskenndur. Frystið aftur og þá er birkisorbet tilbúinn.


Bjarki Hilmarsson, kokkur á Hótel Geysi fékk í vor birkisafa frá þeim Morten og Einari annað árið í röð og er að prófa sig áfram með notkun hans við eldamennsku. „Ég nota safann í ýmsa rétt, m.a. út á salat og sem gljáa á lax. Einnig hef ég notað safann í brauðbakstur. Útkoman hefur verið mjög góð,” segir Bjarki.