Í vikunni hélt Ingunnarskóli stöðvanámskeið í væntanlegum grenndarskógi sínum í Leirdalnum. Settar voru upp 7 stöðvar þar sem leiðbeinendur tóku fyrir efni sem tengdust útinámi og skógarfræðslu. Fjallað var um kennsluaðferðir í útinámi, víkingaleiki, umhirðu og grisjun, uppbygging á aðstöðu með notkun torfs, grjóts og timburs, trjámælingar, tálgutækni, eldstæði og útieldun. Um 40 kennarar tóku þátt í námskeiðinu og fóru á milli stöðvanna. 

Tilgangur námskeiðsins var að kynna starfsfólki Leirdalinn og þá fjölbreyttu möguleika sem hann býður upp á í skólastarfi. Dalurinn er afar skjólsæll og trjágróður orðinn vöxtulegur og margir fallegir staðir í honum frá náttúrunnnar hendi sem bjóða upp á fjölbreytt verkefni og vinnu með nemendum.

Starfsfólk frá Sæmundarskóla, LÍS-verkefninu, ÍTR og Umhverfissviði leiðbeindu á stöðvunum. Í framhaldi af námskeiðinu mun verða gengið formlega frá grenndarskógarsamningi á milli LÍS, Umhverfissviðs og skólans.

 

Mynd og texti: Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktar ríkisins