Indriði Indriðason í Tunguskógi sumarið 1994 ásamt Jóni Loftssyni skógræktarstjóra.
Indriði Indriðason í Tunguskógi sumarið 1994 ásamt Jóni Loftssyni skógræktarstjóra.

Skógarvörður á Tumastöðum í 37 ár

Indriði Indriðason, fyrrverandi skógarvörður á Tumastöðum í Fljótshlíð, lést 7. febrúar sl. á 83. aldursári. Hann var einn af ungu mönnunum sem komu til liðs við Skógrækt ríkisins á uppgangsárunum á 6. áratug síðustu aldar.

Indriði var fæddur 16. apríl 1932, ættaður frá Ytra-Fjalli í Aðaldal, sonur Indriða Indriðasonar ættfræðings og Sólveigar Jónsdóttur. Hann tók við sem skógarvörður í Fljótshlíð árið 1962, þar sem aðalviðfangsefnið var rekstur gróðrarstöðvarinnar á Tumastöðum ásamt nýræktun skóga þar. Um árabil ráku þau Valgerður Sæmundsdóttir, kona hans, stærstu skógræktargróðrarstöð landsins og framleiddu plöntur í flesta eldri skóga á Suður- og Vesturlandi. Auk þess var garðplönturæktun liður í starfseminni og er því fjöldi garða og sumarhúsalóða prýddur trjám og runnum frá Tumastöðum. Lifandi minnisvarðar um ævistarf Indriða og Valgerðar eru um land allt. Indriði lét af störfum sem skógarvörður árið 1999, en þá var Skógrækt ríkisins að hætta rekstri gróðrarstöðva. Hann hafði því verið skógarvörður á Tumastöðum í 37 ár.

Framlag Indriða Indriðasonar til skógræktar á Íslandi er ómetanlegt og starfsfólk Skógræktar ríkisins vottar aðstandendum innilega samúð.