Enn herjað á „rándöppið“

Rannsóknarhópur frá háskólum Nýja-Sjálands og Mexíkós hefur komist að því að samspil sýklalyfja og þriggja algengra tegunda illgresiseiturs sem mikið eru notaðar í landbúnaði og við garðyrkju geti leitt til þess að sýklarnir verði ónæmir fyrir lyfjunum.

Grein með niðurstöðum hópsins, sem birtist í vefritinu MBio, varpar nýju ljósi á þann víðtæka vanda sem hlotist hefur af sýklum sem þróað hafa með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum. Niðurstöðurnar gætu stuðlað að betri skilningi á því hvers vegna sýklalyfjaónæmi hefur farið svo mjög vaxandi á undanförnum árum sem raun ber vitni.

Eiturefnin þrjú sem hópurinn rannsakaði voru glífósat, dicamba og 2,4-D. Glífósat er virka efnið í illgresiseitrinu þekkta, Roundup, sem stórfyrirtækið Monsanto framleiðir. Sama fyrirtæki framleiðir dicamba undir vörumerkinu Kamba en 2,4-D er virka efnið í hinu illræmda efni „agent orange“, illgresiseyði sem bandaríski herinn notaði til að lauffella regnskóga í Víetnam og Kambódíu á sjöunda áratug síðustu aldar.

Saurkólí- og salmonellubakteríur voru meðhöndlaðar með fimm mismunandi sýklalyfjum, ciprofloxacin, chloramphenicol, ampicillin, kanamycin og tetracycline, og í ferlinu voru bakteríurnar útsettar fyrir einhverju af illgresislyfjunum þremur. Vissir stofnar saurkólígerla geta valdið meiri sýkingum en nokkur önnur bakteríutegund og rétt eins og salmonellubakteríur geta þeir valdið alvarlegum og jafnvel lífshættulegum sýkingum.

Í flestum tilvikum reyndust eiturefnin leiða til þess að mótstaða tók að myndast gegn sýklalyfjunum áður en lyfin höfðu náð að drepa bakteríurnar. Þetta gat jafnvel gerst þótt eiturskammturinn væri ekki stór. Ákveðnar samsetningar eiturs og sýklalyfs reyndust að vísu hafa þveröfug áhrif og gera bakteríurnar næmari fyrir sýklalyfjunum. Nokkur tilvik voru jafnframt um að eiturefnin hefðu engin áhrif.

2,4-D, fyrsta kemíska illgresiseitrið, fundið upp í seinni heimsstyrjöldinni.
Mynd: Mysid - Wikimedia Commons.

Hættan er í landbúnaðinum, ekki í matnum

Það magn illgresislyfja sem algengt er að finnist í matvælum við prófanir var ekki nægilegt til að hafa þessi áhrif og valda sýklalyfjaónæmi hjá örverum en rannsóknarhópurinn hefur sigtað út ákveðnar aðstæður sem geta skapast, bæði á heimilum fólks og á bændabýlum, þar sem fólki er hættara við að verða nægilega útsett fyrir illgresislyfjunum til að þau geti valdið sýklalyfjaónæmi.

Það eina sem til þarf er að fólk eða dýr séu nægilega lengi í snertingu við nægilega mikið magn af eiturefnunum. Slíkar aðstæður geta til dæmis skapast hjá búpeningi eða frævurum eins og býflugum, segja höfundar greinarinnar í MBio. Í þéttbýli geti þetta gerst hjá gæludýrum eða börnum. Áhrifin komu semsé aðeins í ljós ef magn eiturefnanna var yfir þeim heilsuverndarmörkum sem sett hafa verið um magn efnanna í matvælum.

Það fólk sem hættast er við skjótum áhrifum efnanna eru bændur, landbúnaðarverkafólk og annað fólk sem kemst í snertingu við illgresislyfin þegar þeim er dreift. Þetta getur þar með átt við fólk sem býr nægilega nærri býlum þar sem efnunum er úðað til að úðinn berist að því. Einnig eru býflugur nefndar sérstaklega. Á býflugnabúum getur þurft að meðhöndla flugurnar með sýklalyfjum til að vinna á ýmsum sýkingum og ef eiturefnin bætast þar við fer ferlið af stað.

Helsta áhyggjuefnið er að þessi truflun á virkni sýklalyfja geti gert læknum erfitt fyrir að meðhöndla sýkingar hjá fólki. Mikilvægt er fyrir lækninn að geta gefið strax í upphafi hæfilegt magn af sýklalyfjum við lífshættulegri sýkingu.  Læknirinn metur skammtastærðirnar út frá almennri vitneskju um verkan lyfjanna en ef illgresiseitur blandast við sýklalyfin í líkamanum getur það dregið úr næmi sjúklingsins fyrir sýklalyfinu og þá getur farið svo að sýklalyfjaskammturinn sem gefinn var sé ekki nægilega sterkur til að bjarga lífi sjúklingsins. Enn fremur er sú hætta fyrir hendi að sýklar sem öðlast hafa ónæmi fyrir sýklalyfjum nái að dreifa sér í annað fólk eða dýr og þá er voðinn vís.

Á Roundup sök á vaxandi sýklalyfjaónæmi?

Í frétt um málið á vefnum theecologist.org  er vitnað í Richard Young sem stýrir stefnumörkun hjá samtökunum Sustainable Food Trust og hefur árum saman barist fyrir misnotkun sýklalyfja í breskum landbúnaði. Hann telur að hér sé mjög mikilvæg uppgötvun á ferðinni og hún sýni að notkun illgresiseiturs í verksmiðjubúskap geti verið ein skýringin á ört vaxandi sýklalyfjaónæmi síðustu árin. Því verði beint til löggjafans, bæði í Bretlandi og Evrópusambandinu, að gaumgæfa þessi mál út frá nýjum niðurstöðum og endurskoða reglur um illgresiseitur með hliðsjón af áhrifum þeirra á næmi sýkla fyrir lyfjum.


Repjuakur.
Mynd: John O'Neill - Wikimedia Commons

Young bendir á að í Bandaríkjunum sé áætlað að um tvær milljónir sýkinga komi upp á hverjum degi þar sem í hlut eigi lyfjaónæmar bakteríur. Í því sambandi sé vert að benda á að glífósat sé geysimikið notað í landbúnaði þar í landi ásamt erfðabreyttum nytjaplöntum sem þola eitrið. Illgresiseyðirinn vinnur þá á illgresinu án þess að nytjaplantan verði fyrir skaða. Þar er átt við „rándöpp-þolnar“ nytjaplöntur (Roundup Ready) svo sem soja-, maís og repjuplöntur. Young bætir við að vestra hafi glífósat greinst í regnvatni.

Samhliða þróun erfðabreyttra nytjaplantna sem þola glífósat hafa komið upp afbrigði af „illgresistegundum“ sem þola eitrið ekkert síður en erfðabreyttu nytjaplönturnar. Við því hafa menn brugðist með nýjum erfðabreytingum, nytjaplöntum sem þola tvær gerðir illgresiseiturs. Þá er tvenns konar eitri dreift yfir akrana en ekki aðeins einni gerð.

Efnarisinn Dow Chemical Company hefur þróað soyjabauna- og maísyrki með vörumerkinu Enlist sem þola eiturefnablöndu frá sama fyrirtæki og kallast sú blanda Enlist Duo. Í henni er bæði glífósat og 2,4-D. Hvort tveggja, yrkin og eiturefnablandan, hefur hlotið samþykki bandarískra landbúnaðaryfirvalda (USDA). Monsanto-fyrirtækið hefur líka sótt um leyfi hjá sömu yfirvöldum til að selja erfðabreytt sojabauna- og bómullaryrki sem þola bæði Roundup og dicamba-eitur.

Nú velta menn fyrir sér hvort notkun þessara nytjaplöntuyrkja geti ekki ýtt enn frekar undir notkun hinna umræddu þriggja eiturefna í landbúnaði og þar með aukið enn þann vanda sem hlýst af sýklalyfjaónæmi. Enn verri tilhugsun er sá möguleiki, sem reyndar var ekki skoðaður í umræddri rannsókn, að ákveðnar blöndur þessara þriggja eiturefna geti valdið jafnvel enn meiri hættu á sýklalyfjaónæmi en ef efnin eru notuð stök. Þar fyrir utan er enn mikið verk óunnið við að rannsaka áhrif ótal annarra mögulegra samsetninga sjúkdómsvaldandi baktería, eiturefna til notkunar í landbúnaði og sýklalyfja.

Eða eins og höfundar greinarinnar í MBio vara við: Ný sýklalyf verða ekki tínd upp af götunni og það getur tekið áratugi að þróa þau og framleiða fyrir almennan markað. Kemísk efni eins og illgresislyf geta seinkað því að menn nái árangri í baráttunni við vaxandi sýklalyfjaónæmi í heiminum.

Þó nokkur umræða hefur verið um glífósat undanfarið í kjölfar frétta um að efnið væri krabbameinsvaldandi. Um það hefur verið fjallað hér á skogur.is. Á vefnum eru í gangi undirskriftasafnanir og skorað á stjörnvöld í löndum heims að banna efnin. Á liðnu hausti ákváðu yfirvöld í Hollandi að banna notkun á eiturefninu Roundup þar í landi frá og með áramótum.

Texti: Pétur Halldórsson