Snjóbrot fyrir norðan en roði á barrtrjám syðra

Að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Austurlandi, koma skógar á Héraði mjög vel undan vetri. Barrtré eru græn og þróttmikil víðast hvar enda var lítið um sólbjarta frostdaga seinni hluta vetrar. Ekkert kal er í trjánum frá síðasta hausti og enginn roði sést á furu. Hann segir þó að eftir hvassar norðan- og sunnanáttir síðustu vetur sé talsvert um brotin tré í skógunum eystra, bæði birki- og lerkitré. Mest af því tjóni hafi orðið seinni hluta vetrarins 2012-2013.

Á Vesturlandi koma skógarnir ágætlega undan vetri, segir Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi. Þó séu ungar furur aðeins brenndar en að öðru leyti segir hann að allt líti vel út. Ekki beri mikið á vindfalli þótt eitthvað svolítið sé um það. Hins vegar ber nokkuð á svæðum sem skemmd eru af sitkalús en það sé lítið á Vesturlandi miðað við það sem er á höfuðborgarsvæðinu til dæmis. Snjóbrot er ekkert í skógum á Vesturlandi eftir þennan vetur enda var nánast enginn snjór. 

Á Suðurlandi sést sums staðar mikill roði og sviðnun á trjám. Á höfuðborgarsvæðinu er oftast um að kenna sitkalús (Elatobium abietinum) á grenitegundum, en á stöðum sem standa opnir gagnvart norðanátt  má sjá vind- eða skaraskemmdir eftir norðanáttir vetrarins. Á myndinni hér fyrir ofan sjást barrskemmdir á bergfuru í Esjuhlíðum. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá, ræktar skóg í Ölfusi og segist ekki hafa séð jafnmikinn roða og sviðnun frá vorinu 2009. Ung stafafura og nýgróðursett sitkagreni á bersvæði sé óvenju mikið lemstrað og rautt eftir veturinn en aðrar viðkvæmari sígrænar tegundir, svo sem þallir og þinir, hafi í vetur einkum sviðnað á þeirri hlið sem snýr mót norðri. Líklega séu það skemmdir af skara sem dunið hafi á trjánum í norðanáttinni. Vorið 2009 hafi svipaðar skemmdir sést sunnan megin á trjánum í kjölfar saltroks í byrjun september 2008. Núna sé því öðru um að kenna en salti eða sólfari.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, tekur undir það að víða séu furur sviðnar á Suðurlandi en það sé þó misjafnt frá einu svæði til annars og helst séu ungplöntur sviðnar. Skari hafi skemmt trjágróður, til dæmis á nokkrum svæðum í Fljótshlíð þar sem miklir stormar geisuðu í vetur með skafbyl. Snjóbrot séu nokkur eftir bleytusnjó í janúar og rok sem fylgdi í kjölfarið. Úr Svínadal berast svipaðar fregnir, að flestar furur séu talsvert brenndar á þeirri hlið sem snýr mót norðri.

Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Norðurlandi, segir enn ekki hægt að segja alveg til um hvernig skógarnir í Fnjóskadal koma undan vetri enda er þar enn mikill snjór og ekki hægt að fara alls staðar um. Greinilegt sé þó að töluvert sé brotið undan snjó, sérstaklega yngra birki. Myndin hér til hliðar er af brotnu birki í Vaglaskógi. Barrviðurinn virðist líta vel út og Rúnar hefur ekki tekið eftir roða eða sviðnun á honum, hvorki í Fnjóskadal né á Vöglum á Þelamörk. Um mánaðamótin mars-apríl féll snjóflóð í Þórðarstaðaskógi í Fnjóskadal sem skemmdi sérstaklega stafafuru úr 40 ára gömlum kvæmatilraunum en einnig fór eitthvað af bæði rauðgreni, blágreni og birki. Tjónið á eftir að koma betur í ljós þegar snjóa leysir.

Ekki má gleyma Vestfjörðunum. Þar eru víða að vaxa upp fallegir skógar og náttúrlegt birki líka í sókn þar sem beit hefur dregist saman. Sæmundur Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skjólskóga, segist ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af vestfirskum skógum en fullsnemmt sé að segja til um hvernig skógarnir vestra koma undan vetri því þeir séu lítið sem ekkert farnir að taka við sér. Á páskagreinunum sem hann tók inn af birki til páskanna sýnist honum að e.t.v. geti orðið einhverjar kalskemmdir á birkinu. Lengstu greinarnar báru merki um kal en þetta eigi eftir að koma betur í ljós. Lítill snjór var vestra í vetur og því sé væntanlega lítið um snjóbrot. Skaraveður hafi á hinn bóginn verið nokkuð tíð frá miðjum desember og fram að páskum. Hann reiknar því með að einhverjar skaraskemmdir séu á viðkvæmum tegundum á veðrasömum svæðum, aðallega furu og greni en skaraveður geti líka leikið lerkið illa.

Viðmælendur vefs Skógræktarinnar bentu á að skammt væri liðið á vor og því enn hætta á hretviðrum. Þegar snemma vorar eins og í ár óttast skógræktarfólk alltaf að komið geti hörð frost sem valdi skemmdum á trjágróðri. Við vonum að svo fari ekki og fram undan sé gjöfult ræktunarsumar um allt land. Myndin hér fyrir neðan var tekin í dag, 28. apríl, í Vaglaskógi og þessi gulvíðigrein sýnir að þrátt fyrir snjóinn er skógurinn að vakna til lífsins.