Fagmálastjóri Skógræktarinnar í vinsælum sænskum vísindaþætti

Rætt var við Aðalstein Sigurgeirsson, fag­málastjóra Skógræktarinnar, í vísinda­þætt­inum Vetenskapsradions veckomagasin sem er á dagskrá P1 í sænska ríkisútvarp­inu á föstudögum. Fjallað var um þá miklu möguleika sem felast í skógrækt á Íslandi og hversu vel skógarnir vaxa á landinu.

P1 er talmálsrás sænska ríkisútvarpsins, Sveriges Radio. Rás þessi rekur metnaðar­fullt vísindaútvarp með vönduðum þáttum og þátturinn Vetenskapsradions vecko­magasin er nokkurs konar fréttaþáttur þar sem sagðar eru fréttir af nýjustu vísinda­uppgötvunum innan lands og utan og birt brot úr öðrum vísindaþáttum rásarinnar. Þetta vísindaútvarp sænska ríkisútvarpsins er útvarp í sinni allrabestu mynd, fræðandi, skemmtilegt og unnið af vandvirkni og þekk­ingu með lifandi hljóðum og stemmn­ingu á vettvangi þar sem það á við. Þættir vísindaútvarpsins njóta mikilla vinsælda meðal hlustenda.

Tveir dagskrárgerðarmenn sænska vísindaútvarpsins, þau Lena Nordlund og Björn Gunér, voru á Íslandi nýlega og hittu þá Aðalstein í skóginum á Kirkjubæjarklaustri þar sem stendur hæsta á Íslandi, líklega hæsta tré sem vaxið hef­ur á Íslandi í milljónir ára eða allt frá því að ísöld hófst. Nefnt var í þættinum að Ísland ætti við sama vanda að stríða og mörg þróunarlandanna þar sem barist er við jarðvegseyðingu. Ísland hefði verið klætt skógi að stórum hluta við landnám og Aðalsteinn rekur hvernig skógurinn hvarf að mestu með þeim afleiðingum sem slíku fylgja.

Ísland er enn í dag líklega það land í Evrópu sem hefur minnsta skógarþekju, fyrir utan kannski Vatíkanið. Eitt helsta tilefni skógræktar á Íslandi er að binda jarðveg og stöðva jarðvegseyðingu, bendir Aðalsteinn á í þættinum. Önnur er að binda kolefni. Auk skógarins á Kirkjubæjarklaustri er farið í asparskóginn að Prestbakkakoti á Síðu þar sem einnig sést hversu miklum og skjótum árangri má ná með skógrækt á Íslandi. Jafnvel þótt sá skógur virðist einhæfur sé reynt að færa inn í slíka skóga þær skógarbotnsplöntur, svo sem berjalyngtegundir, sem hæfa skógunum en hafa horfið vegna aldalangrar ofbeitar. Með tímanum verði til fjölbreytilegir skógar með grósku­miklu lífi og alls kyns kynjaverum eins og við þekkjum frá Svíþjóð. „Komið aftur eftir fimmtíu ár,“ segir Aðalsteinn að lokum í viðtalinu í þættinum Vetenskapsradions veckomagasin á P1 í sænska ríkisútvarpinu.

Texti: Pétur Halldórsson