Töluvert hefur í vetur borið á skemmdum á sitkagreni á suðvesturhorni landsins.  Í stað hins hefðbundna „sígræna“ litar á barrnálum hafa rauðar og brúnar nálar náð yfirhöndinni á mörgum trjánna.  Ástandið er víða með verra móti og sum trén hafa misst svo til allt barr.

Myndin sýnir tvö sitkagrenitré norðan Bústaðavegar í Reykjavík. Tréð hægra megin hefur misst allt barr vegna sitkalúsarinnar, en hitt virðist óskemmt.

Athuganir sérfræðinga á Mógilsá benda til þess að sitkalúsin (Elatobium abietinum) eigi sök á þessum skemmdum. Talsvert var um sitkalús síðastliðið vor og fóru verulegar skemmdir að sjást um mitt sumar 2006.  Skemmdir jukust svo þegar leið á haustið þar til það fór að frysta og hægja á vexti lúsarinnar. 

Sitkalúsin er þekkt vandamál í íslenskri skóg- og garðarækt sem og í öðrum löndum norðvestur Evrópu.  Hennar varð fyrst vart hér á landi 1959 og hefur hún síðan breiðst út um landið og stundum valdið tjóni á sitkagreni, blágreni og hvítgreni.  Þó nokkrir stórir faraldrar hafa orðið þar sem lúsin hefur valdið talsverðum skemmdum á trjám, en oftast eru þær skemmdir tímabundnar og flest trén jafna sig að mestu innan fárra ára.  Algengast er að sitkalúsarfaraldrar komi upp að hausti en hlýnun á vetrum á undanförnum árum hefur leitt til þess að sitkalúsin getur náð sér á strik á vorin líka og eykur það skemmdir á trjám.  Líklegt er að við sjáum einmitt afleiðingar þess nú á suðvesturhorni landsins, þótt of snemmt sé að spá fyrir um vorfaraldur á þessu vori.

Ljóst er að þessar skemmdir stinga verulega í augu en eins og fyrr hefur verið sagt þá hefur reynslan sýnt að flest þessara trjáa munu jafna sig. Brum eru óskemmd og út úr þeim vaxa grænir sprotar í vor sem „klæða munu af sér“ skemmdirnar. Því er ekki er ástæða til að fella þau tré sem hafa orðið lúsinni að bráð, þar sem stærsti skaðinn á trjánum er sjónrænn og ekki varanlegur. 

Texti: Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Myndir: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Myndin fyrir neðan sýnir mismikið skemmt sitkagreni í Esjuhlíðum, ofan Mógilsár.


frett_28032007