(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Stefna í skógræktarmálum Íslendinga finnst í ýmsum lögum, samþykktum og áætlunum en hvergi í heild á einum stað. Í október árið 2006 fól þáverandi landbúnaðarráðherra Jóni Loftssyni, skógræktarstjóra, að móta heildstæða stefnu í skógrækt á Íslandi til langs tíma, eða a.m.k. til ársins 2040. Umboðið var síðan endurnýjað af umhverfisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir breytingar á stjórnarráðinu árið 2008. Nefnd leidd af skógræktarstjóra hefur nú unnið drög að slíkri stefnu.

Auk skógræktarstjóra skipuðu nefndina þau Jón Geir Pétursson og Brynjólfur Jónsson f.h. Skógræktarfélags Íslands, Álfhildur Ólafsdóttir og K. Hulda Guðmundsdóttir f.h. Landsamtaka Skógareigenda, Valgerður Jónsdóttir f.h. Landshlutaverkefnanna í skógrækt, Aðalsetinn Sigurgeirsson f.h. Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Þröstur Eysteinsson f.h. Þjóðskóga Skógræktar ríkisins. 

Drögin hafa verið send til fyrirfram ákveðinna umsagnaraðila en þeir eru m.a. Skógræktarfélag Íslands, Landssamtök skógareigenda, landshlutaverkefnin fimm, Skógfræðingafélag Íslands, Umhverfisnefnd alþingis, Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd alþingis, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Skipulagsstofnun, Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, stjórnmálaflokkar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ferðamálastofa, Náttúuverndarsamtök Íslands, Landvernd og Samtök iðnaðarins.

Í ljósi breyttra tíma, krafna samfélagsins um opna stjórnsýslu og aukin áhrif almennings vill Skógrækt ríkisins einnig bjóða almenningi að senda inn athugasemdir við drögin. Óskað er eftir því að athugasemdir berist með tölvupósti til Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra hjá Skógrækt ríkisins, fyrir 20. september n.k.