(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Á alþjóðlegum degi skóga er vert að minnast skógræktarstarfsins og þess árangurs sem náðst hefur í ræktun nýrra skóga á Íslandi. Þegar best lét, á árinu 2007, voru gróðursettar yfir 6 milljónir plantna á einu ári. Nú hafa þessi afköst dregist verulega saman vegna niðurskurðar á fjárlögum íslenska ríkisins og allt stefnir í að árleg gróðursetning á þessu ári verði aðeins um 3,5 milljónir plantna. Í skógunum sem ræktaðir hafa verið síðastliðin 114 ár standa nú um 56 milljónir gróðursettra trjáa á 37.900 ha lands. Að auki er að finna í þessum skógum um 12 milljónir af sjálfsáðum trjáplöntum, aðallega íslenskt birki. Þannig tekur náttúran sjálf virkan þátt í skóggræðslunni.

Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá hefur með höndum verkefnið Íslensk skógarúttekt (Ísú). Ísú hefur staðið fyrir úttektum á ræktuðum skógum á Íslandi með það að meginmarkmiði að reikna út kolefnisbúskap þeirra. Það er mikilvægur hluti í bókhaldi gróðurhúsloftegunda á Íslandi sem yfirvöld hafa skuldbundið sig til að gera með undirritun Kyoto-bókunarinnar.Skipulögð skógrækt hófst á Íslandi árið 1899 en fyrstu áratugina var ræktun nýrra skóga með gróðursetningu trjáplantna afar takmörkuð.

Þau gögn sem safnast við þessa úttekt er hægt að nýta til að gefa upplýsingar um margt annað í fari ræktaðra skóga á Íslandi en kolefnisbúskap. Þetta eru upplýsingar sem lýsa stærð og ástandi skóga í þátíð og nútíð og eru líka forsenda fyrir spá fyrir um framtíð skóganna. Þannig er m.a. hægt,með nokkurri nákvæmni, að áætla flatarmál og til gamans fjölda trjáa í ræktuðum skógum.

Aðrar mikilvægar upplýsingar sem hægt er að vinna út úr þessum gögnum eru t.d. um mögulegt magn grisjunarviðar. Í sömu úttekt er áætlað að hægt verði að grisja allt að 290 þúsund rúmmetra af trjáviði á næstu 5-10 árum. Lauslega áætlað er verðmæti þessa grisjunarviðar um 3,8 milljarðar króna sem leggst við aðra atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi verðmætaframleiðslu á Íslandi. Gleðileg er líka sú staðreynd að eftirspurn eftir trjáviði er margfalt meiri en framboðið.


Texti: Arnór Snorrason
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir