Forvitnilegur hugbúnaður

i-Tree er samheiti yfir forvitnilegan opinn hugbúnað frá bandarísku alríkisskógræktinni, USDA Forest Service, sem ætlað er að auðvelda greiningu á trjám og skóglendi í þéttbýli, mat á verðmætium þeirra gæða sem trén veita og leiðsögn um skipulag og umhirðu trjágróðurs í þéttbýli.

Öll vinna við þróun hugbúnaðarins var byggð á ritrýndum, vísindalegum gögnum. Í hugbúnaðarpakkanum i-Tree Tools eru mjög gagnleg tæki sem nýst geta stærri sem smærri sveitarfélögum. Með einföldum hætti má kortleggja allan trjágróður innan marka viðkomandi sveitarfélags og leggja mat á efnahagslegt gildi trjánna fylgja fyrir samfélagið. Með þessi gögn í höndunum geta sveitarfélögin skipulagt og bætt trjárækt sína og veitt betri ráðgjöf um allt sem snertir trjágróður. Þannig fæst betri mynd af því hvernig haga megi trjáræktinni á hverjum stað þannig að hún komi að sem mestu gagni við að auka loftgæði, tempra vatnsrennsli, minnka hávaða, veita skjól fyrir vindi, kulda og sólarhita o.s.frv.

Hugbúnaðurinn var upphaflega kynntur í ágúst 2006 og síðan hafa mörg sveitarfélög í Bandaríkjunum en einnig ýmis samtök, ráðgjafar, sjálfboðaliðar, nemar og fleiri nýtt sér hann til að greina og miðla upplýsingum um allt frá einstökum trjám upp í trjáreiti, stærri skógi vaxin svæði og jafnvel allan trjágróður heilla borga og ríkja. Með því að afla upplýsinga um og greina þá raunverulegu þjónustu sem tré veita í samfélaginu geta notendur i-Tree hugbúnaðarins greint nákvæmlega hvernig trjárækt í viðkomandi þéttbýli hefur áhrif á lífsskilyrði íbúanna og skipulagt aðgerðir til að auka sem mest þessi jákvæðu áhrif trjánna. Hvort sem fólk vill líta á eitt einstakt tré eða heilan skóg má finna í hugbúnaðinum grunngögn til að meta og setja fram verðmæti tiltekins trés eða skógar en líka ráðleggingar um hvernig best megi haga trjárækt og umhirðu íbúunum til hagsbóta.

Hér eru nokkur myndbönd sem sýna betur hvernig nýta má i-Tree hugbúnaðinn. Við tökum nokkur dæmi um forrit eða tól úr hugbúnaðarpakkanum.

  1. i-Tree Suite & tree benefit introduction - 16 mín. (.mp4) - Almenn kynning á þeim tólum sem i-Tools hugbúnaðurinn hefur að geyma og þeirri hugmyndafræði sem byggt er á.
  2. i-Tree Design intro and walkthrough - 30 mín. (.mp4) - Hér er kynnt forritið i-Tools Design og sýnd dæmi um hvernig það má nýta til ýmissa verkefna hjá bæjarfélagi, sveit, borg eða ríki.
  3. i-Tree Canopy intro and walkthrough - 22 mín. (.mp4) - Í þessu myndbandi er sýnt hvernig forritið i-Tree Canopy nýtist til að meta skógarþekju og þá kosti sem trén hafa fyrir samfélagið.
  4. i-Tree Streets introduction - 17 mín. (.mp4) - Myndband sem útskýrir kosti forritsins i-Tree Streets og sýnir dæmi um möguleg verkefni hjá bæjarfélagi, sveit, borg eða ríki.

i-Tree Tools hugbúnaðarpakkinn er ókeypis og öllum aðgengur til niðurhals. Á vefsíðunni itreetools.org er fólk hvatt til að prófa sig áfram og kynna sér hvernig i-Tree getur komið að gagni í samfélaginu.

Texti: Pétur Halldórsson