Í gær var undirritaður grenndarskógarsamningur á milli Húsaskóla, Rannsóknastofnunar HÍ í meinafræði, Lesið í skóginn verkefnis Skógræktar ríkisins og umhverfissviðs Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn að viðstöddum nemendum skólans, starfsfólki og fulltrúum samningsaðila í blíðskaparveðri í skógarreitnum í hlíðinni ofan við skólann þar sem fyrr á tímum stóð Grafarkot.

Börn úr Lúðrasveit Grafarvogs blésu í lúðra og börn úr yngstu bekkjum skólans sungu til skiptis af mikilli innlifun og settu mjög hátíðlegan svip á samkomuna. Fulltrúar samningsaðila skrifuðu undir samninginn og Þórólfur Jónsson deildarstjóri ávarpaði gesti og gat þess að hér væri verið að skrifa undir 18. grenndarskógarsamninginn í borginni og í annað skipti sem um væri að ræða samning við aðila utan borgarinnar, þ.e. Rannsóknastofnun HÍ í meinafræði á Keldum sem ætti skóginn.

Starfsfólk á Keldum gróðursetti þessi tré fyrir 40 árum síðan en lítið sem ekkert hefur verið gróðursett í hann síðan.

Það munu verða verkefni nemenda skólans að huga að snyrtingu skógarins og skapa aðstöðu til útináms í honum í framtíðinni.Skólinn mun með þessum samningi fá aðgang að faglegri leiðsögn og aðstoð við uppbygginguna og við að fjölga trjátegundum í honum til að auka notagildi hans en stærsti hluti trjánna eru furutré.


frett_16122009(1)

frett_16122009(3)

frett_16122009(4)

frett_16122009(5)

frett_16122009(6)


Texti og myndir: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.