Býflugur örva frjóvgun allra blómstrandi plantna, meðal annars trjáplantna. Svo gefa þær líka gómsæt…
Býflugur örva frjóvgun allra blómstrandi plantna, meðal annars trjáplantna. Svo gefa þær líka gómsætt hunang. Skjámynd úr myndbandinu

Ýmsan hag má hafa af ungum skógi, löngu áður en hann fer að gefa nýtanlegt timbur. Fljótlega eftir að land er friðað fyrir beit og skógrækt hefst sést mikil breyting í átt til aukinnar grósku. Fljótlega taka sveppir að aukast og samhliða trjánum má rækta upp berjarunna sem á fáum árum geta farið að gefa umtalsverða uppskeru.

Enn eitt dæmið er hunangsframleiðsla með býflugnarækt. Hún er til dæmis stunduð á skógræktarjörðinni Galtalæk í Biskupstungum þar sem Agnes Geirdal skógarbóndi beitir flugunum sínum á skóginn og uppsker ríkulega í gómsætu hunangi. Agnes segir frá býflugnaræktinni og kostum hennar í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út.

Agnes Geirdal við býflugnabúskapinn. Skjámynd úr myndbandinuEn flugurnar gera meira en að gefa hunang. Þær örva frjóvgun allra blómstrandi plantna, meðal annars trjáplantna. Flugurnar stuðla því enn frekar að aukinni grósku í skóginum og fjöl­breytni í gróðurfari. Án flugna sem frjóvga plöntur gætum við mennirnir ekki lifað því þessi starfsemi flugnanna er einn af grundvallar­þátt­um gróðurvistkerfa á jörðinni.

Það verður því aldrei ofsögum sagt af því að skógar eru gjöfulir á ótalmargan hátt. Ein gjöf skóganna er sætari en aðrar. Það er hunangið sem framleiða má með býflugnarækt. Mynd­band­ið um hunangs­framleiðsluna á Galta­læk gerði Hlynur Gauti Sigurðsson.

Texti: Pétur Halldórsson