Jón Hilmar Kristjánsson skógfræðinemi mælir Hryminn á Mógilsá sem reyndist vera 10,4 metra hár nítjá…
Jón Hilmar Kristjánsson skógfræðinemi mælir Hryminn á Mógilsá sem reyndist vera 10,4 metra hár nítján árum frá gróðursetningu.

Óx hálfan metra í sumar og er 22 cm sver í brjósthæð

Fyrstu fræ lerkiblendingsins sem nú ber nafnið Hrymur urðu til í gróðurhúsi á Vöglum í Fnjóskadal haustið 1995. Þeim var sáð vorið 1996 og fyrstu plönturnar voru gróðursettar vorið 1997. Farið var með nokkrar af þeim á Mógilsá og þær gróðursettar í mel í brekkunni ofan við rannsóknastöðina. Þrátt fyrir rýran jarðveg hefur þessi fyrsti Hrymur vaxið mög vel í neðanverðum hlíðum Esjunnar.

Miðvikudaginn 28. september sl. fóru þeir Jón Hilmar Kristjánsson skógfræðinemi, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, upp í brekkuna á Mógilsá og mældu hæsta tréð í Hrymslundinum. Það reyndist vera 10,4 metrar á hæð og þvermál bolsins í brjósthæð reyndist vera 22 cm. Vöxtur sumarsins sem leið var um 50 cm og því ljóst að tréð náði 10 metra hæð, og vel það, á þessu ári, 19 ára gamalt frá gróðursetningu. Ekki nóg með það, þá eru trén í lundinum flest beinvaxin og óskemmd.

Á myndinni er Jón Hilmar Kristjánsson að mæla hæsta Hryminn við Mógilsá. Hann mun taka mælingar á Hrym í samanburðartilraunum á fjórum stöðum á landinu sem lokaverkefni í skógfræði og þá kemur í ljós hvort annars staðar leynist stærri eintök.

Mynd og texti: Þröstur Eysteinsson