„Hringdu í tré“ er samstarfsverkefni Vodafone og Reykjavíkurborgar og er liður í því draga úr áhrifum gróðurhúsaloftegunda sem losuð eru í Reykjavík. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Árni Pétur Jónsson forstjóri Vodafone hringdu fyrstu símtölin og gróðursettu tvær hríslur að því búnu í Grasagarði Reykjavíkur og innsigluðu þar með nýjan samning um fjarskiptaþjónustu milli borgarinnar og Vodafone.

Mynd: Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur hringdu í 900 9555 og fengu gjaldfært tré sem gróðursett var í Grasagarðinum. Hægra megin við þá stendur Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, en félagið mun annast gróðursetningu á þeim trjám sem gefin verða (www.umhverfisstofa.is).

Þegar hringt er í símanúmerið 900 9555 gjaldfærast 500 kr. á símreikning eiganda símans og munu þær standa straum af kostnaði við gróðursetningu á trjám í landi borgarinnar. Skógræktarfélag Reykjavíkur mun sjá um að planta þeim trjám sem gefin verða. Þetta átak er viðbót við það græna skref í Reykjavík að gróðursetja 500 þúsund tré í landi Reykjavíkur á næstu þremur árum. (Símanúmerið virkar nú þegar hjá Vodafone og hjá Símanum).

Öll símaþjónusta borgarinnar

Samningurinn nær til allrar símaþjónustu Reykjavíkurborgar; talsímaþjónustu, farsímaþjónustu, gagnaflutninga um farsíma og millilandasímtala. Um er að ræða tæplega 6 milljónir símtala á ári. Þá var samið um svokallaða BlackBerry-þjónustu fyrir notendur á vegum borgarinnar, sem munu með einföldum hætti geta notað farsímann til að nálgast tölvupóst, dagbók og tengiliðalista úr tölvunni sinni auk þess að skoða vefinn úr farsímanum.

Sjá nánari umfjöllun og fleiri myndir á vef Umhverfissviðs Reykjavíkur