Eins og við sögðum frá fyrir u.þ.b. mánuði varð mikið stormfall í Ásbyrgi í september, þegar leyfar af fellibylnum Ike gengu yfir landið. Í Ásbyrgi er lítill lerkireitur sem gróðursettur var á árunum 1951-1959 og er tæpur einn hektari að flatarmáli. Reiturinn varð fyrir miklum skemmdum þegar u.þ.b. 50 m breið geil myndaðist í gegnum reitinn í storminum og flest trén rifnuðu upp með rótum.

Stafsfólk Skógræktar ríkisins á Norðurlandi hefur á undanförnum vikum unnið að hreinsun í lerkireitnum og er henni nú lokið. Viðurinn hefur verið keyrður út úr reitnum og talið er að alls hafi fallið um 300 tré í hvassviðrinu, eða u.þ.b. 70 m3. Viðurinn sem til fellur verður nýttur í borðvið, eldivið, staura og trjákurl.

frett_29102008_1

frett_29102008_2