Kátir sjálfboðaliðar á stund milli stríða. Ljósmynd: trailteam.is/Karolina Pieczyńska
Kátir sjálfboðaliðar á stund milli stríða. Ljósmynd: trailteam.is/Karolina Pieczyńska

Hópar sjálfboðaliða sem munu starfa að viðhalds- og uppbyggingarstarfi á Þórsmörk og nágrenni í sumar hafa nú að mestu verið skipaðir. Þátttakendur koma nú frá 18 löndum og hefja fyrstu hóparnir störf í maí. Bætt var við hópum vegna mikillar aðsóknar mjög hæfra umsækjenda.

Í tilkynningu frá Thórsmörk Trail Volunteers er sagt frá því að undanfarnar vikur hafi verið unnið hörðum höndum við að taka á móti umsóknum, vinna úr þeim og taka viðtöl við þá umsækjendur sem þóttu koma til greina. Ávallt er mikill áhugi á sjálfboðastarfinu á Þórsmerkursvæðinu enda fær fólk þarna tækifæri til dvalar og útivistar í stórkostlegu umhverfi um leið og það vinnur landinu gagn og nýtur félagsskapar við fólk með svipuð áhugamál og markmið.

Að  þessu sinni sóttust mjög margir efnilegir umsækjendur eftir sjálfboðastörfum og því þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir við úrvinnslu umsóknanna. Til að hægt væri að nýta sem mest af þessu góða fólki var fáeinum vinnuhópum bætt við það sem áður hafði verið áætlað.

Sjálfboðaliðar sumarið 2022 verða frá átján löndum, bæði byrjendur, þátttakendur frá fyrri árum og fólk sem þurfti að hætta við vegna ferðatakmarkana á síðasta ári. Ánægjulegt er að segja frá því að nokkrir af reyndustu sjálfboðaliðum síðustu ára snúa nú aftur og fá hlutverk hópstjóra.  Tilhlökkunarefni er að fá að vinna með þeim á ný.

Áætlað er að þegar aðstæður leyfa í apríl kvikni líf í bækistöðvum Skógræktarinnar í Básum á Goðalandi og Langadal á Þórsmörk þegar undirbúningur hefst fyrir móttöku fyrstu sjálfboðaliðanna. Fyrstu hóparnir hefja svo störf í maí. Að venju stýrir Charles J. Goemans sjálfboðastarfinu á Þórsmerkursvæðinu sem starfsmaður Skógræktarinnar.

Texti: Pétur Halldórsson