Fyrir skömmu fór fram kynning á Lesið í skóginn í Hópsskóla í Grindavík sem hóf starf sitt í byrjun janúar á þessu ári. Á kynningunni notaði starfsfólkið granna árssprota og breyta þeim í alls konar hluti sem auðvelt er að vinna með yngstu nemendunum. Í Hópsskóla eru aðeins nemendur í 1.-3. bekk og þeir munu síðan eldast með skólanum og ljúka námi í 10. bekk. Áhugi starfsfólks beinist að vinnu í nærumhverfi og náttúru og er því mikill áhugi á að nota sem mest efni úr náttúrunni í kennslunni. Þó ekki sé mikill trjágróður í Grindavík eru þar þó vel grónir garðar og ekki er langt í skógræktina í Þorbirni. Skólinn hyggst athuga hvort möguleiki sé á að taka vel gróinn garð í fóstur og nýta hann í skólastarfi. Þessi kynning varð til þess að skólinn hefur áhuga á að taka upp formlegt samstarf við Lesið í skóginn og að haldið verði námskeið í haust þar sem farið verður dýpra í einstaka þætti útinámsins og trjánytjanna.


frett_01032010(2)

Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktar ríkisins.