Forsíða ritsins Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu.
Forsíða ritsins Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu.

Hefti með helstu niðurstöðum vöktunar á áhrifum eldgossins komið út

Álag vegna eldgosa á umhverfi, dýr og al­menning eru almennt lítt þekkt. Nýverið var gefin út, í Riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 83, áhugaverð samantekt rannsókna á áhrifum Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu. Ritið samanstendur af 15 köflum þar sem fjölmargir fagaðilar hafa lagt hönd á plóg við að draga saman helstu niðurstöður rannsókna og vöktunar á áhrifum eld­goss­ins; meðal annars sérfræðingar

Merkjanleg áhrif á furunálum

Í ritinu er meðal annars sagt frá mælingum sem benda til þess að brennisteinn í lofti hafi haft áhrif á vetrarskemmdir í furu á Fljótsdalshéraði. Ætla megi að þau áhrif megi rekja til mengunar frá gosinu. Áhrifin hafi þó ekki verið mjög útbreidd og ollu ekki mælanlegum skemmdum til langframa.

Annað sem tengist skógum og rætt er um í ritinu snertir sýrustig jarðvegs í mólendi og skógum á Fljótsdalshéraði. Sýrustig mæld­ist marktækt lægra í útjörð á Fljótsdals­héraði haustið 2015 frá því sem mældist 2002. Súrnunin var þó vel innan þolmarka lífvera og því var engra neikvæðra áhrifa að vænta á lífríkið. Að hluta til megi þakka þetta hárri jónarýmd og háu sýrustigi í íslenskum eldfjallajarðvegi, en aðallega því hversu lítill hluti þess brenni­steins­tvíildis (SO2) sem losnaði í Holu­hrauns­gos­inu náði að hvarfast yfir í brennisteinssýru yfir landinu.

Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu

Í frétt um útkomu ritsins á vef LbhÍ segir að þó að sérfræðingar birti vísindarannsóknir sínar á alþjóðavettvangi í sér­hæfðum miðlum verði oft erfitt og tímafrekt að ná heildaryfirsýn yfir niðurstöður jafnmargra og ólíkra aðila og komu að vöktun og rannsóknum á áhrifum Holuhraunsgossins. Samantekt sem þessi geri því fræðasamfélaginu, stjórnvöldum og almenningi vonandi kleift að ná betri yfirsýn yfir það margslungna álag sem getur skapast af völdum loftmengunar og eldgosa hérlendis. Von aðstandenda ritsins sé sú að samantektin muni styrkja samhæfð viðbrögð við slíkum atburðum í framtíðinni.


Eitt stærsta hraungos á sögulegum tíma

Atburðirnir sem leiddu til eldgossins í Holuhrauni hófust með jarðskjálftahrinu í Bárðarbungu um miðjan ágúst 2014. Hraungosið sem hófst í Holuhrauni þann 31. ágúst 2014 er með stærri hraungosum hérlendis á sögulegum tíma. Gosið varði í um hálft ár en skilgreind goslok voru 29. febrúar 2015. Gosið var í eðli sínu sam­bærilegt að gerð og Skaftáreldar 1783-1784, sem ollu móðuharðindunum svokölluðu, mikið eldfjallagas en lítil aska. Eldfjallagastegundir bárust víða frá Holuhraunsgosinu og mældist styrkur hár víða um land á gostímanum. Víðtækari loftmengunar af völdum eldfjallagass hafði ekki orðið vart hérlendis síðan í Skaftár­eldum.

Talsverð áhrif

Í þessu hefti er gerð grein fyrir megin­niður­stöðum úr mörgum þeim vöktunar- og umhverfisrannsóknum þar sem reynt var að meta áhrif eldgossins í Holuhrauni á umhverfi og heilsu. Ljóst er að áhrif eld­gossins í Holuhrauni á eðlis- og efna­fræði­lega eiginleika umhverfisins hafa verið tals­verð og líklega meiri en margan grun­aði. Niðurstöðurnar sýna að eldfjallagas frá gosinu hafði mælanleg áhrif á umhverfis­aðstæður hérlendis þrátt fyrir að atburðurinn hafi átt sér stað á hálendi Ís­lands, að vetri til og fjarri mannabústöðum.

Sumar af þeim mælingum sem fjallað er um í ritinu voru gerðar á meðan á gosinu stóð, en aðrar, t.d. á straumvatni, gróðri og jarðvegi, fóru fram síðar á árinu 2015, nokkru eftir skilgreind goslok. Staðsetning gossins var hins vegar afar heppileg, utan jökla og fjarri byggð, og tímasetningin lágmarkaði einnig hversu mikið af eldfjallagasinu hvarfaðist yfir í brennisteinssýru yfir landinu. Bæði staðsetning og tímasetning gossins hefur þannig án vafa lágmarkað neikvæð áhrif eldfjallagassins á umhverfi og heilsu og í raun gert að verkum að áhrifin urðu ekki mun meiri en raunin varð.

Að neðan er efnisyfirlit ritsins til nánari glöggvunar á efni þess. Ritinu má hlaða niður hér.

 ">

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: LbhÍ