Sumarið 2010 var borkjörnum safnað úr tuttugu birkitrjám í Bolholti á Rangárvöllum en Bolholt er eitt af skógræktarsvæðum Skógræktarfélags Rangæinga. Markmið rannsóknarinnar var meðal annars að kanna fylgni árhringjavaxtar og veðurfars í ungum trjám.

Helstu niðurstöður sýna að fylgni árhringjabreidda í birkinu frá Bolholti var mest við meðalhitann í júní (r = 0,7) og júlí (r = 0,5). Hlýir júní og júlí gefa því góðan vöxt í birkinu. Hlýnandi veðurfar síðustu ára eykur því vöxtinn umtalsvert í birkinu eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem nefnist Kolbjörk sem er samstafsverkefni Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins og fjallar um endurheimt birkivistkerfa og kolefnisbindingu. Verkefnið er styrkt af Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR).


Texti: Ólafur Eggertsson