Morgunblaðið, 27. maí, 2003

HÉRAÐSSKÓGAR hafa umtalsverð jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir byggðir á Fljótsdalshéraði og vega á móti byggðaröskun. Þetta kemur fram í skýrslunni Efnahagsleg áhrif Héraðsskóga fyrir nálægar byggðir, sem skrifuð er af Benedikt Hálfdanarsyni sem lokaverkefni við Háskólann á Akureyri. Rannsókn Benedikts var unnin til að meta efnahagsleg áhrif Héraðsskóga fyrir þau sveitarfélög sem tilheyra verkefnissvæðinu og leitaðist hann við að greina hvort verkefnið hefði náð að treysta byggð og efla atvinnulíf á Héraði.

Héraðsskógar eru fyrsta landshlutabundna skógræktarverkefnið sem sett var í gang af ríkisvaldinu. Tilgangur þess er að styðja eigendur lögbýla á Austur-Héraði, Norður-Héraði og í Fella- og Fljótsdalshreppi til skógræktar, sem getur með tímanum orðið auðlind sem skilar arði. Yfirumsjón með verkefninu er í höndum Héraðsskóga, en landbúnaðarráðherra þarf að staðfesta alla samninga við bændur. Þá annast Skógrækt ríkisins sérhæfða skipulags- og greiningarvinnu tengda verkefninu.

Á meðan Héraðsskógar og Skógræktin skipuleggja hvernig staðið skuli að verki, sér hver landeigandi fyrir sig um þætti eins og jarðvinnslu, girðingar, plöntun o.þ.h. 97% af framkvæmdakostnaði er greiddur af Héraðsskógum en landeigendur bera sjálfir 3% af kostnaði.

Í skýrslunni kemur fram að endurgreiðsluskylda hvíli á þátttakendum. "Framlög Héraðsskóga til bænda eru því ekki beinir styrkir heldur langtímalán, þar sem endurgreiðslan er háð afkomu skógræktarinnar. Í lögunum er ákvæði um að 5% af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar úr skógunum skuli lögð á endurnýjunarreikning jarðarinnar. Sá reikningur er í vörslu Héraðsskóga og skal þeim fjármunum varið til endurnýjunar skóga á viðkomandi jörð innan fimm ára. Ennfremur skal 30% hreins hagnaðar skilað til ríkissjóðs og varið til frekari skógræktar.

Að sumu leyti má líkja þessari fjármögnun við víkjandi lán, því greiðslur af því sitja á hakanum þar til allir aðrir lánardrottnar hafa fengið sitt. Á hinn bóginn virðist ekki í lögunum gert ráð fyrir að skógareigendur hætti að greiða til Ríkissjóðs, þó að framlagið sé að fullu endurgoldið og því mætti að vissu leyti líkja fjármögnuninni við framlag hlutafjár," segir í skýrslunni.

Benedikt vann þjóðhagsuppgjör fyrir svæðið til að meta umfang skógræktarinnar í hagkerfi Fljótsdalshéraðs. Niðurstaða þess var að á árunum 1997-2000 nam verg landsframleiðsla svæðisins á milli 4,5 og 5,5 milljörðum króna, sem er í fullu samræmi við hlut svæðisins í íbúafjölda landsins.

Það fjármagn sem rennur til Héraðsskóga á ári hverju er að miklu leyti nýtt innan svæðisins, s.s. í laun til þátttakenda og umsjónarmanna sem og í plöntukaup. Reiknað hefur verið út að um 30 ný störf hafi skapast á Fljótsdalshéraði beint og óbeint í kjölfar Héraðsskógaverkefnisins.

Sérstök athugun á atvinnu- og byggðaþróun svæðisins leiðir í ljós að skógræktin vinnur marktækt á móti byggðaröskun. Fram kemur í skýrslu Benedikts að fjármagn sem rennur sem vinnulaun til þátttakenda í verkefninu hafi jákvæð jaðaráhrif. Hann dregur þá ályktun að möguleikinn á skógrækt sem tekjugjafa fyrir bændur á svæðinu dragi úr líkum á byggðaflótta og Héraðsskógar standi því undir nafni sem byggðaverkefni.

Benedikt greindi svæðisbundin veltuáhrif þeirra fjármuna sem ríkið ver til verkefnisins. Kom í ljós að á árunum 1997-2000 hafi framlög ríkisins árlega valdið 75 til 100 milljóna króna aukningu á vergri landsframleiðslu svæðisins, sé miðað við verðlag ársins 2000.

Niðurstaða Benedikts er að þegar umfang verkefnisins er borið saman við stærð hagkerfisins sem það starfar í, megi sjá að Héraðsskógaverkefnið standi fyrir um 1,5% af stærð hagkerfisins. Það verði að teljast nokkuð stórt hlutfall fyrir eitt verkefni, þó að ekki sé hægt að segja að svæðið sé algjörlega háð því. Ljóst virðist því að jákvæð efnahagsleg áhrif Héraðsskóga séu umtalsverð fyrir Fljótsdalshérað.