(Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
Hér voru skógar. Þeir voru stórvaxnir víða inn til dala. Þeir voru opnir og misaldra. Í þeim voru feyskin og fallin tré innan um   þau ungu og frísku. Í þeim var meiri reyniviður en við þekkjum á seinni tímum. Í þeim var ríkulegur botngróður, þeir voru ekki  eyðimerkur. Þeir þöktu hlíðar og fylltu dali. Nær ströndum landsins þakti kjarr víðáttumikil svæði og eins upp til heiða.   Áveðurs og í rýru landi var kjarrið oft mjög lágvaxið.

Þeir voru nýttir á ósjálfbæran hátt. Menn vildu kjarrið burt til að skapa  betra beitiland eins og fólk gerir allsstaðar í heiminum þar sem það sest að. Menn felldu skóg í byggingartimbur. Menn  gerðu til kola til að vinna járn úr mýrarrauða, smíða verkfæri og viðhalda þeim. Sumstaðar óx skógurinn aftur og þá var aftur  hægt að fella hann og gera til kola. Eftir því sem á leið urðu skógar sífellt mikilvægari sem uppsprettur fóðurs fyrir búfé og allt fram undir 1950 var viður notaður til að  elda mat. Menn gátu ekki viðhaldið skógunum sökum fátæktar og skorts á tækni og þekkingu. Þegar skógarnir voru orðnir litlir umfangs gat jafnvel vægt beitarálag komið í veg fyrir að þeir endurnýjuðu sig. Jarðvegsrof og víðáttumikil eyðimerkurmyndun fylgdi í kjölfarið.

Sagan var svipuð hjá nágrönnum okkar. Við vorum í sömu stöðu og nágrannar okkar í Vestur-Noregi, Danmörku, Írlandi og  Stóra- Bretlandi. Skógar voru orðnir svo litlir og lélegir að ekki var lengur hægt að tala um skógarauðlind í þessum löndum heldur. Við hófum að endurheimta skógana seinna en Danir en um svipað leyti og Bretar, Írar og Norðmenn. Hér  hafa hlutirnir þó gengið mun hægar en í nágrannalöndunum.

Tré vaxa ekki á Íslandi, það vita allir. Ein ástæðan fyrir hægagangi í skógrækt var almenn fátækt framan af 20. öld og færri skattgreiðendur á ferkílómetra lands en í hinum löndunum. Aðalástæðan var þó lengi vel sú að það þurfti að byrjá á því að sannfæra Íslendinga um að tré gætu yfir höfuð vaxið á Íslandi, hvað þá að hér væri hægt að rækta skóga til timburs. Í hinum löndunum voru þó dæmi um stór tré, sem við höfðum ekki hér. Fyrstu tilraunirnar í skógrækt voru líka óheppilegar. Þær sýndu lengi vel einungis það að hér væri hægt að rækta fjallafuru, sem myndar álíka kjarr og birkið, bara sígrænt. Með tímanum fundust þó mun betri tegundir og það  allmargar. Reyndar er enn til fólk sem dregur í efa að tré geti vaxið á Íslandi.

Íslendingar hafa líka átt í nokkrum erfiðleikum með að skilja hugtakið skógrækt. Skógrækt er landbúnaður segja sumir, náttúruverndarmál segja aðrir. Enn aðrir flokka hana sem landgræðslu. Þessi tilhneiging margra Íslendinga að vilja  skilgreina skógrækt sem eitthvað annað en skógrækt er bæði truflandi og vitlaus. Skógrækt er ekki undirflokkur neinnar annarrar landnýtingar. Hún hefur snertifleti við landbúnaðarmál, umhverfismál, landgræðslu, lýðheilsu, iðnað og margt  fleira, en er sinn eigin málaflokkur. Ég hef grun um að þetta sé angi af þeirri áráttu margra Íslendinga að vilja lítillækka það sem gengur vel.

Það er þó staðreynd að a.m.k. fjórar trjátegundir vaxa jafn vel eða betur hérlendis en aðaltimburtrén í Skandinavíu vaxa á sömu breiddargráðum, og þar er úrvinnsla skógarafurða stærsta atvinnugreinin. Það er líka staðreynd að skógar sem urðu til við aðeins lítið brot af þeirri mjög svo takmörkuðu gróðursetningu sem hér átti sér stað fyrir 40-60 árum síðan eru við   grisjun að skila um 100 millj. kr. í brúttótekjur á ári. Salan skilar ekki miklum hagnaði, enda aðeins um fyrstu grisjun á skógunum að ræða, en hún skapar um 15 ársverk og úrvinnslan nokkur í viðbót. Það merkilega er að það er grisjun á aðeins um 80 ha af skógi árlega sem stendur undir þessu. Það er landsvæði sem er álíka stórt og Öskjuhlíðin plús Fossvogskirkjugarður. Trén sem eftir standa halda síðan áfram að vaxa næstu áratugina og margfalda verðmæti sitt. Við grisjun opnast skógarnir og verða betri til útivistar og lífríkið verður fjölbreyttara. Ef við ættum nú 200 þús. ha af svona skógum, eins og stefnt er að, og værum að grisja eða fella 3% þeirra á hverju ári gæfi það alls um 2000 ársverk. Það munar um minna í okkar litla samfélagi. Tvö hundruð þúsund hektarar eru aðeins um 2% af Íslandi. Við getum auðveldlega komið okkur upp slíkri auðlind á komandi áratugum, og reyndar miklu stærri, án þess að ganga á önnur gæði svo sem kornræktarland, útsýni, fornleifar eða mófuglastofna. Það eru engir raunverulegir árekstrar á milli skógræktar og þessara gæða, bara ímyndaðir.
Mynd: Jón Loftsson, skógræktarstjóri, ásamt sendiherra Noregs í Hallormsstaðaskógi.
(Esther Ösp Gunnarsdóttir)