Tölvugerð mynd af vinningstillögunni þar sem ráðgert er að hún verði lögð yfir Markarfljót við Húsad…
Tölvugerð mynd af vinningstillögunni þar sem ráðgert er að hún verði lögð yfir Markarfljót við Húsadal á Þórsmörk.

Ný göngubrú við Húsadal bætir aðgengi að Þórsmörk

Niðurstaða hönnunarsamkeppni um göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal var tilkynnt á miðvikudaginn var, 8. október. Tillaga Eflu verkfræðistofu og Studio Granda varð hlutskörpust í keppninni sem Vegagerðin efndi til ásamt Vinum Þórsmerkur.

Í dómnefndinni sátu þau Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt, Erlingur Jensson, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, Gísli Gíslason landslagsarkitekt, Guðrún Þóra Garðarsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, og Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, sem var formaður dómnefndar og fulltrúi Vina Þórsmerkur í nefndinni. Fimm hönnunarteymi lýstu áhuga á þátttöku eftir forval sem auglýst var í maí í vor. Þrjú þeirra voru valin, fengu keppnislýsingu 10. júlí og skiluðu inn tillögum sínum 15. september.

Að mati dómnefndarinnar eru helstu kostir vinningstillögunnar að þetta sé látlaus brú og falli nokkuð vel inn í umhverfið. Orðrétt segir: „Form brúarinnar er einfalt, svífandi og látlaust. Það er sniðið að landslaginu báðum megin árinnar og fellur eðlilega að landi í um níu metra hæð yfir Markarfljótsaurum.“ Brúin er svokölluð strengbrú, fremur léttbyggð og sögð þarfnast lítils viðhalds. Í raun er þetta hengibrú þótt hún hangi ekki í stöplum því vírarnir sem bera mannvirkið uppi eru undir brúnni en ekki yfir eins og í hefðbundinni hengibrú. Hún verður 158 metra löng og brúargólfið klætt timbri. Í tillögu hönnuðanna er gert ráð fyrir að brúarsmíðin muni kosta um 140 milljónir króna en við það bætist kostnaður við undirbúning verkefnisins, frágang beggja vegna brúarinnar, hugsanlegar lagfæringar á hönnun hennar og fleira.

Dómnefndin telur galla við hugmyndina hversu bratt brúargólfið er til endanna sem gæti orðið erfitt fyrir hreyfihamlaða og í hálku. Einnig virðist handrið brúarinnar vera gisið sem þyrfti að laga í lokaútfærslu. Þá sé og nokkur óvissa um grundun brúarinnar og sveiflutíðni. Kostnaðaráætlun þessarar hugmyndar var lægst af þeim þremur tillögum sem bárust.

Vinir Þórsmerkur hafa starfað frá árinu 2010 og að þeim stendur Skógrækt ríkisins ásamt Ferðafélagi Íslands og Útivist, Farfuglum, Kynnisferðum og sveitarfélaginu, Rangárþingi eystra. Félagsskapnum er ætlað að vinna að ýmsum framfaramálum í Þórsmörk, til dæmis að gera svæðið aðgengilegra fyrir fólk, vinna að fræðslu, leggja stíga og viðhalda þeim en líka að vernda náttúru svæðisins og stuðla að því að gróðurfar þess verði áfram í framför.

Þórsmörk er einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins og göngubrúin eykur öryggi og aðgengi fólks að þessu svæði sem tekið var til við að friða fyrir beit árið 1920. Þórsmörk hefur síðan verið í umsjón Skógræktar ríkisins. Með göngubrúnni verður flestum kleift að komast í Þórsmörk en leiðin verður líka örugg flóttaleið af svæðinu, til dæmis ef flóð verða í ám. Brúin opnar nýjar gönguleiðir og dreifir vaxandi ferðamannastraumi betur um Þórsmerkursvæðið.

Brúarsmíðin verður greidd með styrkjum frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Ferðamálastofu og Skógrækt ríkisins en einnig með framlagi Vegagerðarinnar sem afgreitt var frá Alþingi 2013.

Kynningarfundur um brúna og samkeppnina verður haldinn í Goðalandi í Fljótshlíð 22. október kl. 20.

Texti:  Pétur Halldórsson
Myndir: Studio Granda