Fer í fyrsta sinn fram í rómönsku Ameríku

Fréttatilkynning:
International Union of Forest Research Organizations
(Alþjóða skógvísindasambandið IUFRO)

(Salt Lake City, 7.október 2014) 
Alþjóðaráð IUFRO hefur ákveðið að 25. heimsráðstefna sambandsins árið 2019 skuli fara fram í borginni Curitiba í Brasilíu. Þetta verður í fyrsta sinn í 121 ára sögu IUFRO sem heimsráðstefnan fer fram í rómönsku Ameríku. Ákvörðunin var tekin þegar alþjóðaráð IUFRO hittist á fyrsta fundi sínum meðan á 24. heimráðstefnunni stendur í Utah. Átta borgir höfðu boðist til að halda heimsráðstefnuna 2019 en á 52. fundi alþjóðaráðsins, sem haldinn var í Kostaríka í júní, var Curitiba valin úr þeim þremur sem eftir sátu að loknu umfangsmiklu og kröfuhörðu tilboðsferli. Alþjóðaráðið samþykkti samhljóða að mæla með því að heimsþingið skyldi haldið í Curitiba 2019 enda samræmdist það þeirri stefnu IUFRO að beita samstarfsneti sínu í auknum mæli í rómönsku Ameríku.  

„Að velja heimsráðstefnunni stað í Brasilíu er vissulega líka tækifæri til að kynna IUFRO í Brasilíu og annars staðar í rómönsku Ameríku þar sem hlutfallslega eru færri meðlimir en í öðrum heimshlutum,“ segir Niels Elers Koch, forseti IUFRO. Auk þess geri þetta mun fleiri vísindamönnum frá mið- og suður-amerískum skógvísindastofnunum og háskólum kleift að taka þátt í ráðstefnunni.

Brasilíska ríkisskógræktin og brasilíska landbúnaðarrannsóknastofnunin Embrapa taka höndum saman um að skipuleggja þennan mikla viðburð í Curitiba sem er höfuðstaður sambandsríkisins Paraná í Suður-Brasilíu. Yeda Oliveira, talskona Embrapa, hefur lýst ánægju sinni með þetta val og bendir á að Curitiba, sem er 1,8 milljóna manna borg, sé annáluð fyrir að vera mjög „græn“ og manneskjuleg borg. Hún sé notuð hvaðanæva um heiminn sem fyrirmynd sjálfbærni í þéttbýlisþróun og þar sé einstaklega hátt hlutfall skógar í borgarlandinu, 64,5 fermetrar af skógi fyrir hvern íbúa.

Jobero Freitas, sem er talsmaður brasilísku ríkisskógræktarinnar, bætir við að þau séu hreykin af því að vera fyrsta landið í rómönsku Ameríku til að halda alþjóðaráðstefnu IUFRO. Þetta gefi ekki einungis færi á að styrkja þátttöku brasilískra stofnana í alþjóðlegu rannsóknarstarfi heldur einnig að efla rannsóknarstarf í skógvísindum í Brasilíu og auka vægi skógvísinda í bæði stjórnmálunum og í brasilísku samfélagi.

Hér má hlaða niður fréttatilkynningunni á ensku í PDF-skrá

Fjölmiðlafulltrúi IUFRO:
Gerda Wolfrum, International Union of Forest Research Organizations (IUFRO),
wolfrum@iufro.org

Alþjóða skógvísindasambandið IUFRO er einu heimssamtökin sem helga sig skógvísindum og tengdum fræðum. Aðild að sambandinu eiga rannsóknarstofnanir, háskólar og einstakir vísindamenn ásamt stjórnsýslufulltrúum og öðrum hagsmunaaðilum sem fást við málefni trjáa og skóga.

Texti/þýðing: Pétur Halldórsson