Jón Auðunn Bogason, Aðalsteinn Siguirgeirsson, Robert van Schooten og Koen Kramer ræða um hlutverk m…
Jón Auðunn Bogason, Aðalsteinn Siguirgeirsson, Robert van Schooten og Koen Kramer ræða um hlutverk mosa í skógarvistkerfum. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Áfram verður haldið í sumar við gróðursetningu vegna samninga við fjölþjóðafyrirtækið Land Life sem hófust í fyrrasumar. Þegar sumarið er úti verða komnar niður trjáplöntur á vegum Land Life í um 600 hektara lands. Fulltrúar Land Life voru á Íslandi í síðustu viku til að skoða framvindu verkefna og ræða framhald samstarfsins.

Land Life Company er fjölþjóðafyrirtæki með höfuðstöðvar í Hollandi og fæst við að fjármagna skógræktarverkefni. Verkefnin eru með mismunandi áherslum en oftast er sú áhersla sem er mest áberandi kolefnisbinding í þágu þess að draga úr loftslagsbreytingum. Samstarf Land Life við Skógræktina hófst árið 2020 og er með miklum ágætum. Á árunum 2021-2022 verður gróðursett í alls um 600 hektara lands í Þjórsárdal, Haukadal og Skorradal, sem er umtalsvert átak.

Reinier Bulstra og Koen Kramer skoða mikinn „kolefnisskóg“ á Stálpastöðum. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonDagana 23.-25. maí heimsóttu fjórir fulltrúar Land Life Skógræktina til að skoða framvindu verkefnanna og ræða framhaldið. Það voru Robert van Schooten, aðaltengiliðurinn við Ísland, Koen Kramer skógfræðingur og þeir Sander Keulen og Reinier Bulstra sem fást við þróun nýrra verkefna. Skoðaðar voru gróðursetningar frá síðasta ári á Suðurlandi og eldri skógar í Skorradal. Síðan var fundað á Mógilsá og ýmsum spurningum velt upp (og svarað). Gestirnir jafnt sem gestgjafarnir voru hæstánægðir með heimsóknina.

Samskipti sem þessi eru til marks um nýja tíma í skógrækt á Íslandi. Æ fleiri fyrirtæki og samtök hafa áhuga á að styðja við skógrækt, bæði innlend og alþjóðleg. Sum eygja gróðavon vegna mögulegrar sölu á vottuðum kolefniseiningum eftir fá ár (í stað margra áratuga áður en hægt er að selja timbur). Önnur leggja áherslu á að binda mikið kolefni án þess endilega að ætla að græða á því. Enn önnur eru einkum að hugsa um endurreisn náttúrugæða og að skapa skóga sem þola munu álagið sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér, jafnframt því að sinna þörfum samfélagsins fyrir efnisleg gæði og vistkerfisþjónustu. Skógræktin tekur fagnandi á móti þeim öllum.