Ræktun græna skógarbeltisins mikla í Afríku er risastórt verkefni og eitt af mörgum stórtækum nýskóg…
Ræktun græna skógarbeltisins mikla í Afríku er risastórt verkefni og eitt af mörgum stórtækum nýskógræktarverkefnum í heiminum um þessar mundir. Ljósmynd: Pxhere.com

Hafin er ræktun skógarbeltis yfir þvera Afríku og í Pakistan er stefnt að ræktun tíu millljarða trjá­plantna á allranæstu árum. Indverjar hyggjast rækta skóg á landsvæði sem nemur hátt í þriðjungi lands­ins fram til 2030. Þetta eru dæmi um stórtæk skógræktarverkefni sem nú fara fram í heiminum.

Um þetta var fjallað í Newsbeat, helsta fréttaþætti breska ríkisútvarpsins BBC, og Manish Pandey blaða­maður skrifar um málið á vef BBC. Spurt var hvað væri verið að gera í skógrækt í heiminum til að hamla gegn loftslagsbreytingum. Kveikjan að umfjölluninni var ekki síst sú niðurstaða vísindamanna sem við sögðum frá hér á skogur.is í síðustu viku, að nýskógrækt væri einhver besta aðgerðin sem jarðarbúar gætu ráðist í til að hamla gegn röskun loftslagsins á jörðinni.

Við vitum að tré draga koltvísýring úr loftinu og þar með að þau geti hjálpað okkur að stöðva hækkun meðalhita í heiminum. En trén halda líka raka í jarðvegi, draga úr flóðahættu og veita ýmsa aðra þjónustu sem mikilvæg er fyrir áframhaldandi líf á jörðinni. Og fyrst nýskógrækt er svona gott ráð við loftslags­vandanum, segir BBC, hvað er þá verið að gera í skógrækt vítt og breitt um heiminn?

Græna skógarbeltið mikla

Hér sést hvernig græna skógarbeltið mikla á að liggja þvert yfir Afríku frá Senegal og Máritaníu við Atlantshafsströndina í vestri yfir til Súdans, Erítreu, Eþíópíu og Djíbútí við Rauðahafið að austan. Lengd þess verður hátt í 8.000 kílómetrar. Mynd: Great Green Wall InitiativeAfríkuþjóðir við suðurmörk Sahara hafa tekið sig saman um ræktun stærsta lifandi fyrirbrigðis sem menn hafa staðið að á jörðinni. Ef ætlunar­verkið tekst verður þetta um átta þúsund kíló­metra langt skógarbelti sem nær þvert yfir álfuna. Nú þegar hafa fimmtán prósent beltisins verið ræktuð og þar af hafa 11,4 milljónir trjáa verið gróðursett í beltið í Senegal einu. Í Búrkina Fasó, Malí og Níger hefur verið sáð til meira en tveggja milljóna trjáplantna af yfir 50 trjátegundum.

Flóðbylgja tíu milljarða trjáa

Geysileg skógareyðing hefur herjað í Pakistan vegna sístækkandi þéttbýlis, vaxandi land­búnaðar og gegndarlausrar búfjárbeitar. Enn er skógareyðing í landinu en fyrir nokkrum árum settu Pakistanar sér það markmið að gróðursetja milljarð trjáplantna í landinu fyrir árið 2020. Markmiðið náðist miklu fyrr en til stóð, í ágúst 2017. Árið eftir settu pakistönsk yfirvöld markið enn hærra, að tíu milljarðar trjáplantna yrðu gróðursettir næstu fimm árin.

Trjásprenging Indverja

Á Indlandi eru líka háleit markmið í skógrækt. Í kjölfar þess að Parísarsamkomulagið var undirritað 2015 ákváðu Indverjar að auka skógarþekju landsins um 95 milljónir hektara fram til ársins 2030. Þar kemur sér vel hversu fjölmennt ríkið er eins og sást þegar Indverjar slógu heimsmet í gróðursetningu trjáplantna árið 2017. Þá tók ein og hálf milljón manns þátt í að gróðursetja meira en 66 milljónir trjáplantna á tólf klukku­stundum í indverska ríkinu Madhya Pradesh.

Bretar vilja líka gera sitt

Í umfjöllun BBC er enn fremur greint frá því að breska ríkisstjórnin hafi stofnað sjóð með 60 milljónum punda sem verja skuli til að gróðursetja meira en tíu milljónir trjá­plantna vítt og breitt um England. Þar af á að nota tíu milljónir punda til að gróðursetja tré í borgum og bæjum.

Þá stefna helstu skógverndarsamtök Bretlands, The Woodland Trust, að því að gróðursetja 64 milljónir trjá­plantna næstu tíu árin. Til að ná megi því markmiði hafa samtökin meðal annars ákveðið að gefa skólum og sveitarfélögum mörg hundruð þúsund trjáplöntur. Með því vilja samtökin hvetja almenning til skóg­ræktar.

Drónar teknir til kostanna

Dæmi um nýsköpunarverkefni sem þróa aðferðir við nýskógrækt með drónum er samstarfsverkefni breska fyrirtækisins BioCarbon Engineering við drónaframleiðandann Parrot. Markmiðið er að margfalda afköstin og draga verulega úr kostnaði. Mynd: BioCarbon EngineeringTalsvert hefur verið rætt um þann möguleika að nota flygildi eða dróna til að auka afköst við ný­skógrækt. Þá er ekki verið að hugsa um gróður­setn­ingu trjáplantna heldur sáningu og slík verkefni eru til dæmis komin í gang í Myanmar, stærsta ríki Suðaustur-Asíu, sem liggur að austanverðum Bengalflóa. Forrita má drónana svo þeir finni hentugan stað fyrir fræin og síðan er frækúlum eða fræbombum skotið niður í jarðveginn úr drónanum. BBC hefur eftir fyrir­tækinu Worldview Impact, sem tekur þátt í þessum verkefnum í Myanmar, að tvær mann­eskj­ur með tíu dróna geti fræðilega sáð til 400 þúsund trjáa á einum degi. Það er mikilfenglegt.

Stór skógræktarverkefni eru víðar um heiminn þótt þeirra sé ekki allra getið í umfjöllun BBC. Kínverjar hafa verið stórtækastir allra undanfarin ár. Þetta má til dæmis sjá á vefnum Carbon Brief, þar sem smella má á hvert land í heiminum og fá upp tölur um nýskógrækt á árabilinu 1990-2015, að gróðursett hafi verið tré á um 80 milljónum hektara lands í Kína á þessu tímabili. Nýjar fregnir af þeim loftslagsárangri sem mögulega mætti ná með nýskógrækt í heiminum eiga vafalaust eftir að hvetja þjóðir heims til enn meiri dáða í þessum efnum.

Texti: Pétur Halldórsson