Hvað gerist í brumunum í vetrardvala? Hvenær falla þau í dvala og hvenær vakna þau til lífsins á ný? Hvaða áhrif hafa vetrarveður og sjávarselta á þroska brumanna og laufgun þeirra á vorin?

Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem fengist er við í vöktun á lífeðlisfræðilegu ástandi asparbruma í Vestmannaeyjum, en þetta er lengsta vöktunarröð á lífeðlisfræðilegu ástandi trjábruma í vetrardvala sem vitað er um í heiminum. Stóri tilgangurinn er að gera líkan af laufgun og kalskemmdum á alaskaösp eftir veðri og veðurfari. Vöktunin hófst í september árið 1995 og nú er fjórtánda vöktunarárið hálfnað. Brumsýni eru tekin á tveggja vikna fresti, frá september til miðs maí ár hvert. Mæld eru fjölmörg atriði sem lýsa lífeðlisfræðilegu ástandi brumsins auk efnagreininga. Þegar hefur ein vísindagrein verið birt með niðurstöðum frá fyrstu árum vöktunarinnar (Jónsson, T. H. (2006). Terminal bud failure of Black Cottonwood (Populus trichocarpa) exposed to salt laden winter storms. Tree Physiology 26: 905-914.). Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur á Mógilsá rannsóknastöð skógræktar hefur séð um vöktunarverkefnið frá upphafi.