Hér sést hvernig vindbrjótur hefur áhrif á snjóalög. Myndin er tekin í Stapaseli. Efnið er políetíle…
Hér sést hvernig vindbrjótur hefur áhrif á snjóalög. Myndin er tekin í Stapaseli. Efnið er políetílen (HDPE) og í því er sólarvörn til að það endist betur. Ljósm. dþ.

Hafa sannað sig í skógrækt hérlendis

Fyrirtækið Selskógar ehf í Stapaseli í Stafholtstungum hefur ákveðið að flytja inn frá Kína heilan gám af vindbrjótum sem veitt geta skjól í margs konar ræktun, meðal annars í skógrækt. Ábúendur í Stapaseli ætla sjálfir að nýta vindbrjótana við skógrækt sína, til dæmis við ræktun þins til jólatrjáa. Frá þessu er sagt í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni.

Frétt blaðsins er á þessa leið:

Fyrirtækið Selskógar ehf í Stapaseli í Stafholtstungum hóf samstarf við Vesturlandsskóga í fyrrasumar. Skipulögð hafa verið svæði á jörðinni til að planta sitkagreni, stafafuru og lerki. Þrátt fyrir ákjósanleg skilyrði til skógræktar að flestu leyti mætti gjarnan vera meira skjól fyrir norðaustanáttinni. Eigendur Selskóga eru þau Daníel Þórarinsson og Ingibjörg Norðdahl. Þau hafa einnig áhuga fyrir ræktun annarra tegunda t.d. jólaatrjáa af þintegundum. „Þinirnir eru viðkvæmir eins og reyndar flestallar ungar skógarplöntur. Við fórum að leita að heppilegum vindbrjótum til að auka skjólið og teljum okkur nú hafa fundið gott efni í því skyni. Vandinn er bara sá að þetta efni fæst ekki á viðráðanlegu verði nema að kaupa beint frá verksmiðju í Kína og ekki fáanlegt í minna magni en heilum gámi,“ segir Daníel. Af þessum sökum hafa þau kynnt málið meðal félaga í Vesturlandsskógum og víðar til að kanna hvort nægilega margir hafi áhuga að vera með í magnpöntun á hentugum vindbrjótum fyrir skógrækt. „Fyrstu viðbrögð hafa verið þokkalega góð og ákvörðun hefur nú verið tekin að henda sér út í djúpu laugina og panta gáminn,“ segir Daníel.

Vindbrjótar þessir hafa reyndar þegar sannað gildi sitt í ræktun trjágróðurs hér á landi. Dæmi um það er 20 ára ræktunarstarf á jörðinni Deild í Fljótshlíð. „Þar drápust allar plöntur á fyrsta ræktunarári en með aðstoð svipaðra vindbrjóta tókst að búa til skjól þrátt fyrir sterka vinda og ekki síst mikinn skara á vetrum, sem svarf meira að segja málningu af húsum ofan snjólínu,“ segir Daníel. Hann segir að vindbrjótar þessir séu einnig hentugir til að verja matjurtagarða fyrir vindstrengjum t.d. kartöflugrös að hausti og á veturna megi nota þá til að stjórna því hvar snjór safnast fyrir. „Gámurinn er væntanlegur um mánaðamótin maí og júní og enn er hægt að tryggja sér einhverjar rúllur ef áhugi er fyrir hendi,“ segir Daníel.