Brynjar Skúlason segir haustið góðan tíma til að átta sig á suðlægum eða norðlægum uppruna trjáa.
Brynjar Skúlason segir haustið góðan tíma til að átta sig á suðlægum eða norðlægum uppruna trjáa.

Litadýrðin er bónus

Haustið er besti tíminn til að greina uppruna trjáplantna. Þau sem eru ættuð af norðlægum svæðum ganga fyrr frá sér en þau sem eru frá suðlægum svæðum. Þessi munur blasir við þegar trén búast í haustliti.


Rætt var við Brynjar Skúlason, skógerfðafræðing hjá Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá, í fréttum Sjónvarpsins í gær. Fréttin er á þessa leið:

Haustlitirnir skarta nú sínu fegursta á Norðurlandi. Skógfræðingur segir að flestar plöntur ættu að vera komnar í haustliti fyrsta október, til að vera vel búnar undir veturinn. 

Innri klukka stjórnar starfsemi

Plöntur búa yfir innri klukku, eins og dýr, sem stjórnar líffræðilegri starfsemi í samræmi við sólarhring og árstíma. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að plöntur skynji haustið um leið og dag tekur að stytta og kólna fer í veðri. Á Íslandi þurfa margar þeirra að búa sig undir veturinn til að lifa af, með því að hætta að vaxa, flytja næringu í rætur og fella laufin. En það er misjafnt eftir plöntum hvernig starfsemin virkar.

Misjafnt eftir kvæmum og einstaklingum

Brynjar Skúlason, sérfræðingur hjá Skógræktinni, segir haustið besta tímann til að greina uppruna plantna. 

„Þau sem eru ættuð af norðlægum svæðum, þau ganga fyrr frá sér heldur en þau sem koma frá suðlægum svæðum. Og svo sjáum þetta ekkert nema bara á haustin því þá blasir þessi munur við í haustlitunum,” segir hann. 

Þetta er líka misjafnt eftir kvæmum innan sömu tegundar. Þessi reynitré eru til að mynda á mjög ólíkum stað í vetrardvala sínum, þrátt fyrir að búa hlið við hlið. 

Fram kemur í greininni á Vísindavefnum að á haustin sendi innri klukka plöntunnar skilaboð um að breyta frumustarfsemi. Blaðgræna brotnar niður og önnur efni koma í staðinn: karóteníðar, sem eru líka í gulrótum og mynda mest gulan og appelsínugulan lit, og antósíanín, sem myndar rauða litinn.

Æskilegast að litirnir séu komnir núna

Brynjar segir að á Íslandi sé æskilegt fyrir plönturnar að haustlitirnir komi í kringum 1. október. 

„Ef þau eru ennþá græn þá þá er það vísbending um að þeim sé hætta búin við fyrstu frostunum,” segir hann. Litadýrðin er svo bara bónus fyrir okkur. „Fólk getur valið sér svo mikið. Bæði af runnum og trjám hvaða haustliti það vill fá.”