Nemendur úr Hofsstaðaskóla við gróðursetningu í landi Bessastaða á Álftanesi. Mynd: Hofsstaðaskóli.
Nemendur úr Hofsstaðaskóla við gróðursetningu í landi Bessastaða á Álftanesi. Mynd: Hofsstaðaskóli.

Settu niður plöntur frá Yrkjusjóði

Nú í september hafa nemendur grunn­skól­anna í Garðabæ gróðursett trjáplöntur á Álftanesi og í Sandahlíð ofan Kjóavalla. Mikil­vægt er að uppvaxandi kynslóðir kynn­ist trjárækt og læri um mikilvægi trjágróðurs fyrir menn og vistkerfi.

Nemendur úr 4. bekk úr Álftanesskóla og Hofsstaðaskóla gróðursettu birkiplöntur í landi Bessastaða á Álftanesi. Plöntunum fá skólarnir úthlutað úr Yrkjusjóði sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, stofnaði til. Frá þessu er sagt á vef Garðabæjar.

Gróðursett var í móa norðan við gróðurreit sem stofnað var til í forsetatíð Ásgeirs Ásgeirssonar. Á vef Hofsstaðaskóla má sjá frétt og myndir frá því þegar nemendur hjóluðu alla leið að Bessastöðum og til baka. 

Einnig héldu nemendur Sjálandsskóla og Alþjóðaskólans á skógræktarsvæðið í Sandahlíð ofan Kjóavalla til að gróður­setja Yrkjuplöntur. Hvert barn gróðursetti um tvær plöntur og fræddist í leiðinni um gróður og naut útiverunnar í góða haustveðrinu.

Yrkjuverkefni þetta er í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar sem útvegaði svæði til gróðursetninga og leiðbeindi nemendum og kennurum við gróðursetningarnar. Slík verkefni eru til fyrirmyndar enda mikilvægt að uppvaxandi kynslóðir kynnist trjárækt og læri um mikilvægi trjágróðurs fyrir menn og vistkerfi.