Skógurinn hentar til útiveru á öllum árstímum. Hér er fólk í furulundi í Einkunnum á Mýrum. Mynd: Pé…
Skógurinn hentar til útiveru á öllum árstímum. Hér er fólk í furulundi í Einkunnum á Mýrum. Mynd: Pétur Halldórsson

Verður að búa til aðstöðu fyrir ferðamenn við skógana

Morgunblaðið ræðir í dag við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, sem segir að skógar landsins séu mikið notaðir. Um hálf milljón gesta komi í skógana á hverju ári samkvæmt lauslegu mati og áfram þurfi að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólkið. Grein blaðsins er á þessa leið:

Hvert er hlutverk skóganna í ferðamennsku? var heiti fyrirlesturs sem Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og skógfræðingur, hélt á fagráðstefnu skógræktarinnar í Borgarnesi í síðustu viku.

„Grófar tölur um heimsóknir í þjóðskógana sem við tókum saman eru um hálf milljón heimsókna. Vissulega koma sumir oft en heimsóknum er að fjölga. Inni í þessum tölum eru ekki tölur frá Heiðmörk og Kjarnaskógi en skógar landsins eru mikið notaðir, bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum,“ segir Hreinn.

Athygli vekur að Skógrækt ríkisins fær ekki neinar tekjur af þessum heimsóknum en Hreinn benti á í fyrirlestri sínum, að áfram þarf að setja upp aðstöðu fyrir ferðamenn.

„Við verðum að búa svo um hnútana að fólki líði vel þarna. Ef við gerum það ekki fyllast þessir staðir af klósettpappír og öðru rusli. Umgengni hefur ekki verið nógu góð, það er alveg rétt, en Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur tekið jákvætt í að styrkja uppbyggingu á þessum stöðum og ég vona að svo verði áfram því það skilar sér.“

Hreinn segir að um tvö prósent Íslands séu skógi vaxin. Gömlu góðu birkiskógarnir voru og eru aðalferðamannastaðirnir, sérstaklega fyrir Íslendinga. Hann nefnir Vaglaskóg, Þórsmörk, Hallormsstaðarskóg, Laugarvatn og Þingvelli.

„Það sem hefur verið að aukast hjá okkur í Skógræktinni er að viðhalda gönguleiðum og búa til nýja áningastaði, setja upp salerni og annað í þessum skógum. Það vantar auðvitað aura í þetta - það er alltaf verið að bíða eftir því að ferðamannasjóðirnir stækki.“

Gönguleiðir í Þjórsárdal og Haukadal hafa verið bættar og eru nú skógarnir þar orðnir færir fólki í hjólastól. „Þá opnast fyrir fólk með barnavagna og eldri borgara, svo dæmi séu tekin,“ segir Hreinn Óskarsson.

Höfundur greinar: Benedikt Bóas