Gönguglatt fólk getur áfram notið þess að ganga upp að Steini. Hann hefur verið tjóðraður með keðjum…
Gönguglatt fólk getur áfram notið þess að ganga upp að Steini. Hann hefur verið tjóðraður með keðjum og púkkað undir hann auk þess sem skiltið hefur verið fært til og rétt af. Ljósmynd af vef Skógræktarfélags Reykjavíkur: Jón Haukur Steingrímsson

Vel gekk í morgun að fjarlægja stóra steina úr Esjuhlíðum sem talin voru ógn við öryggi göngufólks á svæðinu. Björgin ultu með ógnarhraða niður hlíðina og ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef það hefði gerst fyrirvaralaust. Gönguleiðir á fjallið hafa nú verið opnaðar á ný.

Eitt bjargið veltur niður hlíðina. Skjámynd úr myndbandi af fréttavefnum Vísi.Fjallinu var lokað allri umferð í morgun svo ráðast mætti í þetta mikilvæga verk. Þrír verkfræðingar frá Eflu voru fengnir til aðstoðar og sáu um að velta björgunum niður með sérútbúnum tækjum. Haft er eftir Helga Gíslasyni, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, á fréttavefnum Vísi að drunið hafi í fjallinu þegar björgin ultu niður. Mikil þörf hafi verið á því að losna við björgin og þau hafi oltið yfir göngustíginn upp á fjallið á leið sinni niður hlíðina. Sjá má hvernig björgin velta niður hlíðina í myndbandi sem fylgir frétt um málið á Vísi.

Á Þverfellshorni stendur hins vegar enn steinninn frægi sem einfaldlega er kallaður Steinninn. Sá hefur tekið að hallast meir og meir undanfarin ár og höfðu margir áhyggjur af því að hann gæti farið af stað og oltið niður fjallið. Í gær fóru starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur áleiðis á Þverfellshorn til að tryggja að Steinninn héldist áfram á sínum stað enda mikilvægt kennileiti. Keðjur voru festar við Steininn og púkkað undir hann. Sömuleiðis var skiltið á honum rétt af svo nú getur hann áfram verið stolt og prýði fyrir fólk sem nær þessum áfanga á fjallinu.

Texti: Pétur Halldórsson