Eins og að smíða brú og reisa upp á rönd, segir verktakinn

Í apríl hefjast framkvæmdir við smíði háhýsis í Noregi sem verður hæsta timburhús í heimi. Þetta verður 14 hæða íbúðablokk og burðarvirkið úr límtréseiningum. Helmingur íbúðanna í húsinu hefur þegar verið seldur og byggingaleyfið er í höfn. Fjallað var um verkefnið í Björgvinjarblaðinu Bergen tidende 6. mars.

Ole Herbrand Kleppe, verkefnisstjóri hjá byggingafyrirtækinu BOB Eiendomsutvikling AS, segir að sjálft húsið rísi í haust og það gerist hratt. Húsið á að standa við brúna frægu yfir Puddefjörð í Björgvin og einingarnar í það verða fluttar sjóleiðis beint á byggingarstað. Þannig er hægt að hafa þær mjög stórar og hífa þær jafnóðum á sinn stað. Húsið verður að verulegu leyti úr límtré. 

Verkfræðifyrirtækið Sweco sér um hönnun burðarvirkis hússins og þróun byggingaraðferðarinnar. Forsvarsmaður þess, Rune B. Abrahamsen, segir að fyrst sé fjórum hæðum raðað upp á húsgrunninn en þá kemur ein krafthæð sem við gætum kallað svo, eða poweretasje eins og Norðmennirnir segja. Sú hæð er sérstyrkt og á að bera næstu fjórar hæðir þar fyrir ofan. Önnur slík krafthæð verður á tíundu hæðinni og efstu fjórar hæðirnar koma loks þar ofan á. Utan frá líta allar hæðirnar eins út. Aðspurður um hvort þetta hús eigi eftir að sveiflast mikið í vindinum segir Abrahamsen að krafthæðirnar verði þyngdar með steinsteypu til að gera húsið stöðugra.

Alþjóðleg athygli

Jafnvel þótt svo hátt timburhús hafi ekki verið reist fyrr segir Abrahamsen að tæknin sé byggð á rótgróinni reynslu. Hann líkir verkefninu við það að smíða brú og reisa hana upp á rönd. Og hann segir að þau finni fyrir jafnvel enn meiri áhuga á húsinu í útlöndum en heima í Noregi, löndum þar sem meiri hefð sé fyrir háhýsum eins og í Svíþjóð, Þýskalandi og Kanada. Í þessum löndum hefur Abrahamsen hefur verið fenginn til að halda fyrirlestra um verkefnið.

Þaulhugsað

Per Reigstad heitir annar tveggja hönnuða hússins og starfar hjá Artec AS. Hann segist aldrei hafa tekið þátt í verkefni sem hafi verið orðið svo þaulhugsað og þrauthannað áður en framkvæmdir voru hafnar. Þegar byggt sé með hefðbundnum hætti með steinsteypu sé hægt að bíða með ýmsa hönnunarvinnu þar til verkið sé komið nokkuð á veg. Hér hafi hins vegar þurft að hugsa fyrir öllu fyrir fram, leysa öll vafaatriði sem snertu eldhættu, viðhald hússins, hreyfingar þess í vindi og fleira. Setja hafi þurft niður fyrir sér í hvaða röð ætti að gera hlutina, hvaða tækni að nota og verkaðferðir, allt í samstarfi færustu sérfræðinga. Hönnuður hússins ásamt Reigstad er Marina Trifkovic.

Ótrúlegt sjónarspil

Ekki er Per Reigstad hræddur um að nokkuð fari úrskeiðis og hann hlakkar mjög til að verkið hefjist. Þetta verði ótrúlegt sjónarspil því sjálf timburbyggingin muni rísa mjög hratt af grunninum. Hægt er að hafa einingarnar mjög stórar því lóð hússins er við sjó og hægt að flytja einingarnar með skipi alveg að byggingarstað. Einingarnar verða hífðar á sinn stað jafnóðum og það mun ganga hratt fyrir sig. Efnið í allt húsið verður flutt í þremur skipsförmum.

Tré, gler og stál

Reigstad hefur trú á því að húsinu verði vel tekið í borginni og íbúar verði stoltir af verkefninu. Miklum tíma og púðri hafi verið eytt í að gera húsið þannig úr garði að fólki myndi líða sem best í því. Í ytra byrðið verður notað timbur, gler og stál. Það síðasttalda vísar mjög til iðnsögu Björgvinjar. Húsið er kallað Treet, eða Tréð á íslensku, og á eftir að breyta nokkuð ásýnd Puddefjarðarins norðan megin og draga athyglina að sér. Tréð verður svokallað lágorkuhús þar sem orkan er nýtt margfalt betur en í hefðbundnum húsum, bæði til ljósa og upphitunar. Orkusparnaðarstofa norska ríkisins, Enova, styrkir verkefnið að þessu leyti. Um 500 rúmmetrar af trjáviði verða notaðir í burðarvirki hússins og annað eins í aðra byggingarhluta.

Trén og ljóstillífunin

Rune B. Abrahamssen minnir blaðamann Bergens tidende á það sem hann eigi að hafa lært í skóla um hvernig trén ljóstillífa og binda þannig kolefni úr andrúmsloftinu sem geymist í viðnum. Um sjö hundruð tonn af koltvísýringi verða bundin í þessu háa timburhúsi og geymast þar meðan húsið stendur, kannski í mörg hundruð ár. Smíði þessa húss stuðlar því að bindingu og geymslu kolefnis en við hefðbundna húsagerð úr steinsteypu er aftur á móti stuðlað að losun kolefnis því framleiðsla steinsteypu er mjög kolefnisfrek.

Og ekki þarf að hafa áhyggjur af eldvörnum því burðarviðir hússins verða mjög þykkir. Eldur er lengi að læsa sig í slíkan við og hann er lengi að brenna. Þar að auki verður öflugt vatnsúðakerfi í húsinu, brunavarin lyfta og sjálfstæður brunastigi. Brunavarnir hússins hafa fengið sjálfstæða vottun svo þarna á að verða öruggt að búa.

Víðar byggt hátt úr timbri

Norska fyrirtækið BOB er ekki það eina í heiminum sem reisir háhýsi úr tré. Hæsta timburhús í heiminum núna er í Melbourne í Ástralíu. Það er tíu hæðir og smíði þess lauk á síðasta ári. Sjá má líka grein á vef arkitektastofnunarinnar The American Institute of Architechts þar sem fjallað er um timburháhýsi. Meðal annars kemur þar fram að kanadíski arkitektinn Michael Green hafi hannað þrjátíu hæða timburhús sem þó hafi ekki verið reist enn þá. Í greininni er talað um að timbur, sem er elsta byggingarefni sögunnar, geti vel orðið nýjasta nýtt í byggingabransanum.

Aðferðin sem þróuð hefur verið til að reisa Tréð í Björgvin er ekki takmörkuð við fjórtán hæðir, segir Ole Herbrand Kleppe. Hægt væri að reisa tvöfalt hærra hús með þessari aðferð. Hann segir að nú þegar sé helmingurinn seldur af þeim 64 íbúðum sem verða í Trénu og byggingaleyfi sé í höfn. Ekkert virðist því vera til fyrirstöðu að hæsta timburhús í heimi rísi í Björgvin á næstu mánuðum.

Hér má lesa meira um  stóra timburhúsið í Melbourne, sem enn er hæsta timburhús heim
Og greinina í norska blaðinu Bergen tidende má finna með því að smella hér.

Mynd með grein: Artec Prosjekt Team (ILL.)