Minna ræktað af trjám nú en fyrir hrun og því þarf að snúa við

Í framhaldi af þeim fregnum að Íslendingar hefðu gert samkomulag undir hatti Kýótó-bókunarinnar við Evrópusambandið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um nærri þriðjung fram til 2020 hafa fjölmiðlar landins fjallað nokkuð um hvernig ná skuli þessum markmiðum. Í gær, laugardag var rætt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins við Pál Kolka hjá Umhverfisstofnun þar sem kom fram landgræðsla og skógrækt væru leiðir að þessu markmiði.

Í sunnudagskvöldfréttum Sjónvarps var svo rætt við Arnór Snorrason, sérfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, sem segir að hægt sé að ná verulegum hluta af þessum nýju markmiðum með skógrækt. Arnór fer fyrir Íslenskri skógarúttekt þar sem haldið er saman upplýsingum um hversu mikið binst af kolefni í íslenskum skógum. Frétt Ríkisútvarpsins er á þessa leið:

Arnór Snorrason, skógfræðingur hjá Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá segir að hægt sé að ná verulegum hluta af nýjum markmiðum í loftslagsmálum með skógrækt. Mun minna er ræktað af trjám nú en fyrir hrun og því þurfi að snúa við. Rætt var við Arnór í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í dag, sunnudag.

Ísland þarf á næstu 6 árum að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 31% eða 860 þúsund tonn að undanskilinni losun frá stóriðju. Samninganefndir Íslands og Evrópusambandsins undirrituðu nýlega samkomulag um sameiginleg markmið í loftslagsmálum þar sem þetta kemur fram. Svo virðist sem stóla eigi á skógræktina til að ná hluta þessara markmiða ef marka má það sem fram kemur í frétt á vef umhverfisráðuneytisins. Þar segir að reiknað sé með því að hægt verði ná þessu með skógrækt og landgræðslu.

„Það hefur komið í ljós að skógurinn er að binda meira heldur en við héldum að hann myndi gera og það skýrist auðvitað að því að það hefur hlýnað og vöxturinn er meiri þannig að ég er mjög bjartsýnn að þetta gangi upp,“ segir Arnór.

„En það sem að er kannski vondi  punkturinn í þessu er það að það hefur auðvitað verið skorið mikið niður fjárvetingar til skógræktar og ný skógrækt hefur minnkað um helming frá því hún var fyrir hrun þannig að það þarf auðvitað að snúa því við til þess að ná þessum árangri það er nokkuð ljóst,“ segir Arnór.

Aðspurður hvað fjárveitingar til skógræktar hafi verið miklar fyrir hrun og nún segir hann að rétt fyrir hrun, árið 2007, hafi verið gróðursettar 6,3 milljónir plantna á ári. Nú sé það komið niður í 3,3 milljónir plantna. „Þannig að þetta er nánast búið að helminga sig.“

Mynd: Rúnar Snær Reynisson - ruv.is

Fréttin á vef Ríkisútvarpsins