Brynjar gróðursetur fyrsta tré í frægarð fjallaþins til jólatrjáaræktar.
Brynjar gróðursetur fyrsta tré í frægarð fjallaþins til jólatrjáaræktar.

Gefur fræ til framleiðslu úrvalsjólatrjáa

Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur og Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur gróðursettu í síðustu viku kynbættan fjallaþin í frægarða í þjóðskóginum á Vöglum á Þelamörk. Von er á fyrsta fræinu til framleiðslu úrvalsjólatrjáa innan áratugar.

Frægarðarnir eru tveir. Annars vegar er grænleitur fjallaþinur en nokkur hundruð metrum frá voru sett niður tré sem ræktuð hafa verið af bláleitum afbrigðum fjallaþins. Í framtíðinni verða því í boði tveir litir af fjallaþin en með ræktun slíkra trjáa er vonast til að samkeppnin við innfluttan nordmannsþin verði auðveldari og neytendur velji frekar innlenda ræktun.

Brynjar Skúlason hefur unnið að því um árabil að finna hentugan efnivið í frægarðana en fyrir tveimur árum voru um 200 tré ágrædd með sprotum sem valdir höfðu verið af úrvalstrjám, trjám sem þóttu hafa eftirsóknarverða eiginleika til jólatrjáaræktar. Trén hafa verið alin upp í gróðurhúsi í Vaglaskógi og þar verður hluti þeirra áfram um sinn því vera kann að hluti fræframleiðslunnar fari fram við stýrðar aðstæður í gróðurhúsi. Það á eftir að koma í ljós.


Meðfylgjandi myndir sýna þegar Brynjar og Benjamín Örn voru að hefja gróðursetning­una á Vöglum á Þelamörk. Öðrum fræ­garð­inum var valinn staður á frjósömu landi sem jarðunnið hafði verið fyrir fáeinum áratugum með „skoska plógnum“ svo­nefnda, heljarmiklu verkfæri sem margt skógræktarfólk man eftir frá því á árum áður.

Ekki hafði verið fullgróðursett í svæðið en í kring er vaxinn upp skógur sem veitir skjól. Landið er frjósamt enda gamalt tún og góður jarðvegur.

Hinn frægarðurinn er einnig á skjólgóðum og frjósömum stað. Þess má því vænta að upp vaxi hraust tré sem vonandi gefa mikið fræ í fyllingu tímans. Brynjar býst við fyrstu fræjunum innan áratugar, jafnvel eftir fimm ár eða svo.


Gróðursetningin í frægarðinn er merkur áfangi í þessu kynbótastarfi og tíma­setning­in fer skemmtilega saman við alþjóðlegu jólatrjáaráðstefnuna sem nú stendur yfir á Þórisstöðum á Svalbarðs­strönd. Þar er einmitt töluvert fjallað um kynbætur á tegundum til jólatrjáaræktar og Brynjar er meðal fyrirlesara. Birst hafa viðtöl við Brynjar í nokkrum fjölmiðlum í tilefni af ráðstefnunni.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson