Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, tekur við viðurkenningarskjali og fallegri asparplönt…
Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, tekur við viðurkenningarskjali og fallegri asparplöntu fyrir þátttöku sína í gróðursetningarkeppnini sem fram fór á Hafnarsandi. Skjámynd úr umfjöllun Sumarlandans

Keppendur frá Skógræktinni stóðu sig best í gróðursetningu skógarplantna í gróðursetningarkeppni sem haldin var nýverið á Hafnarsandi í Ölfusi. Auk gróðursetningar trjáplantna með geispu var keppt í gróðursetningu og greiningu sumarblóma og þegar upp var staðið urðu öll liðin þrjú sem kepptu jöfn að stigum.

Jón Kr. Arnarson, garðyrkjufræðingur og kennari í Garðyrkjuskólanum, stýrði keppninni. Hann segir að ýmsir hópar gætu haft áhuga á að taka þátt í þessari keppni framvegis og hún væri því komin til að vera. Skjámynd úr umfjöllun SumarlandansKeppnin var haldin undir merkjum verkefnisins Þinn garður, þín kolefnisbinding, sem er á vegum Félags garðplöntuframleiða, og Kolefnisbrúar Landssamtaka skógareigenda og Bændasamtakanna. Markmið keppninnar var að vekja athygli og áhuga á gróðursetningu hvers konar, allt í þágu loftslagsins, og að allir gætu lagt sitt af mörkum til loftslagsmálanna. Trén binda kolefni og grænmeti sem við ræktum sjálf heima draga úr losun vegna framleiðslu og flutnings matvæla svo nokkuð sé nefnt.

Keppendur voru tveir frá Skógræktinni, tveir frá garðplöntuframleiðendum og tveir frá Plöntusamtökum Íslands. Annars vegar átti að gróðursetja tuttugu skógarplöntur með geispu á skóglausu landi en hins vegar nokkrar tegundir sumarblóma í ker. Gefin voru stig fyrir útlit keranna og hvort fólk þekkti sumarblómategundirnar.

Hrönn komin í mark með geispuna. Skjámynd úr umfjöllun SumarlandansFulltrúar Skógræktarinnar voru fyrstir í mark í gróðursetningu með geispu enda atvinnufólk í því fagi, Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, og Hrönn Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Þorláksskóga og fleiri samstarfsverkefna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Keppninni stýrði Jón Kr. Arnarson, garðyrkjufræðingur og kennari við Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Hann segir að ýmsir hópar gætu haft áhuga á að taka þátt í þessari keppni framvegis og hún sé því komin til að vera.

Fjallað var um keppnina í Sumarlandanum í Sjónvarpinu og auk Jóns Kr. Arnasonar var þar rætt við Erlu Hjördísi Gunnarsdóttur, sem stýrir verkefninu Þinn garður - þín kolefnisbinding á vegum Félags garðplöntuframleiðenda. Myndirnar sem hér fylgja eru skjámyndir úr umfjöllun Sumarlandans.

Texti: Pétur Halldórsson

 Keppendur hróðugir með viðurkenningarskjal og fallega ösp að keppni lokinni. Skjámynd úr umfjöllun Sumarlandans