Degli gróðursett á Mógilsá á degi jarðar 2015. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.
Degli gróðursett á Mógilsá á degi jarðar 2015. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Góður dagur til útplöntunar

Skógræktarfólk víða um land tók alþjóðlegri áskorun um gróðursetningu á degi jarðar 22. apríl og lagði þar með sitt að mörkum til að vekja athygli á mikilvægi skógræktar fyrir náttúru jarðarinnar og framtíð lífs á jörðinni. Vel viðraði til útplöntunar um allt land.

Starfsfólk Rannsóknastöðvar skógræktar gróðursetti degli (Pseudotsuga menziesii) í gisinn reit með síberíulerki (Larix sibirica). Sumir voru þarna að gróðursetja tré í fyrsta sinn á ævinni og aðrir í fyrsta sinn með geispu. Plönturnar voru ræktaðar í gróðurhúsi á Mógilsá. Fræið kom frá Hamri í Noregi og kvæmið er Blackwater, B.C. Plönturnar voru tilbúnar til gróðursetningar í fyrrasumar en ákveðið var að bíða með gróðursetningu fram á þetta vor. Hluti sömu plantna fór þó til gróðursetningar á auðnina á Hafnarsandi í fyrra og allar eru þær grænar og sprækar, þrátt fyrir erfiðan vetur, að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar, forstöðumanns á Mógilsá, sem tók myndir við gróðursetninguna þar í fyrradag. Honum sýnist flest stefna í að degli verði framtíðartegund í íslenskri skógrækt. Eða eins og menn segi gjarnan í Oregonríki: „Wherever there are volcanic soils, Douglas fir is king.“ Og nóg er af eldfjallajarðvegi á Íslandi, það er víst.

Í landi Höfða á Fljótsdalshéraði fór Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, út að kvöldi síðasta vetrardags og gróðursetti efnilegan álm (Ulmus glabra) sem á sér skemmtilega sögu. Álmur þessi er það sem Þröstur og Sherry, kona hans, kalla „götubarn“. Þröstur bjargaði þessari plöntu og nokkrum öðrum af bílastæðinu við aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins við Miðvang 2-4 á Egilsstöðum þar sem fræ hafði spírað í laufdrasli sem safnast hafði saman við kantsteina. Í stað þess að veslast þar upp og deyja eins og hvert annað titrandi smáblóm bíður álmsins nú að verða að glæsilegu tré á Höfða.

Rakel Jónsdóttir, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, setur niður gráreyni við göngubrúna í skóginum ofan við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri.
Mynd: Pétur Halldórsson.

Gráreynitré (Sorbus hybrida) urðu fyrir valinu hjá starfsfólki Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskóga sem setti niður sex tré af tegundinni í skóginum ofan við Gömlu-Gróðrarstöðina við Krókeyri á Akureyri þar sem þau hafa skrifstofur. Jóhann Thorarensen, garðyrkjumaður hjá Akureyrarbæ, sem stýrir ræktunarstarfi fyrir bæinn á sömu torfu lét reyniplönturnar í té. Þetta voru stálpaðar pottaplöntur sem urðu að komast í mold og þær eiga eftir að stuðla að eðlilegri endurnýjun þessa aldargamla skógar og aukinni fjölbreytni hans. Eitt tré var sett niður fyrir hönd hvers starfsmanns í Gömlu-Gróðrarstöðinni en þrír þeirra voru vant við látnir þennan dag.

Fleiri myndir af þessum þremur gróðursetningum má sjá í myndasafni. Smellið hér til að skoða

Gaman væri að frétta af fleiri gróðursetningum á degi jarðar og fá sögur og myndir. Slíkt er velkomið að senda á netfangið petur@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson