Ríkisútvarpið ræðir við Skúla í Barra

Nýir búvörusamningar ná ekki til gróðrarstöðva sem framleiða skógarplöntur. Á þetta bendir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri gróðrarstöðvarinnar Barra á Fljótsdalshéraði, í viðtali við Ríkisútvarpið. Hann segir að gott hefði verið að fá tíu ára samning og vísar þar til nýgerðs búvörusamnings. Skammtímahugsun komi í veg fyrir að hægt sé að ná hagkvæmni í samningum um skógarplöntuframleiðslu.

Frétt Rúnars Snæs Reynissonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi, er á þessa leið:

„Það hefði verið gott að fá tíu ára samning eins og landbúnaðargeirinn því þetta er ekkert annað að landbúnaður og hefði átt að vera þarna inni líka út því menn eru að gera svona samninga,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri gróðrastöðvarinnar Barra á Fljótsdalshéraði.

Nýir búvörusamningar ná ekki til gróðrastöðva sem framleiða skógarplöntur. Í Barra eru aðallega framleiddar slíkar plöntur til gróðursetningar í nytjaskógum en starfsskilyrði gróðrastöðva hafa verið mjög erfið á síðustu árum.

Erfitt að gera áætlanir

Skúli bendir á að fjármunir til skógræktar séu ákveðnir á fjárlögum hvers árs og því ráðist oft með skömmum fyrirvara hver þörfin verði fyrir skógarplöntur. „Það tekur eitt ár að rækta plönturnar flestar og þá þarf að gera ráð fyrir fjármagni til þess. Maður tekur ekki sénsinn á því að rækta mikið af einhverju sem ekki er markaður fyrir.“ Þannig komi skammtímahugsun í veg fyrir að hægt sé að ná hagkvæmni.

Hann segir að æskilegt væri að Skógræktin gæti samið við ríkið um hve mörgum plöntum ætti að planta næstu 10-20 árin og að tryggt væri að sú áætlun yrði fjármögnuð. Hann tekur fram að ríkiskaup bjóði út ræktun á plöntum fyrir mörg skógarverkefni og í fyrra hafi ríkiskaup boðið út plöntukaup til þriggja ára með mögulegri framlengingu um tvö ár. Slík útboð séu þó alltaf með fyrirvara um fjármögnun. Landshlutaverkefni í skógrækt hafi sveigjanleika í samningum og geti dregið plöntukaup saman um 20%.

Rekstrargrundvöllurinn getur horfið

Þrjár stórar gróðrastöðvar framleiða skógarplöntur á Íslandi, Barri, Sólskógar og Kvistar auk nokkurra minni. Samkeppni gróðrastöðva er hörð og þær bítast um verkefni í útboðum. Þegar gróðrastöð tapar í einu útboði getur hún orðið ofan á í því næsta. Því færri og stærri sem útboðin eru þeim mun meiri skellur er það fyrir gróðrastöð að tapa útboði og þar með eykst áhætta á að einstaka stöðvar detti út af markaðnum. Skúli telur að þannig geti hörð samkeppni á endanum leitt til fákeppni. Vinna er hafin við að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt. Óljóst er hvað áhrif það hefur á fjölda útboða; hvort að ný sameinuð skógræktarstofnun fari í eitt stórt útboð á plöntuframleiðslu. Skúli sér líka kosti við sameiningu landshlutaverkefna og Skógræktar ríkisins sem gæti samræmt kröfur um plöntustærðir og gerðir.

Verðlækkun át upp stærðarhagkvæmni

Barra gekk illa í síðustu útboðum í nóvember og fær aðeins að framleiða 2 þúsund plöntur af rúmlega 800 þúsund plöntum sem þá voru boðnar voru út. Skúli segir að hlutur Barra í landsframleiðslunni sé þó býsna góður.  „Landsframleiðslan er komin niður í um 3 milljónir plantna og Barri afhendir í sumar líklega um 1,3 milljónir plantna eins og útlitið er í dag.“ Hann tekur fram að þó að ágætlega gangi í augnablikinu geti það breyst snöggt. „Landsframleiðslan er orðin svo lítil að öll stærðarhagkvæmni er farin úr greininni og ef menn lenda í áföllum er lítið afgangs miðað við lægstu verð sem samið hefur verið um í síðustu útboðum.“

Óvíst hvort nýr búvörusamningur skapi tækifæri

Lengi hefur verið rætt um möguleikann á því að rækta grænmeti í Barra og auka þar með fjölbreytni í starfseminni sem gæti hugsanlega stutt við reksturinn.  Skúli segir að mikill áhugi sé fyrir því að nýta gróðurhús til að rækta grænmeti fyrir heimamarkað á Austurlandi en það strandi meðal annars á kostnaði við lýsingu og eins skorti hefð fyrir ylrækt á svæðinu. Afar dýrt sé að taka inn öfluga raftaug og tengigjöld hjá RARIK séu hár þröskuldur enda flokkist Barri undir dreifbýlistaxta.

Ríkið hefur niðurgreitt flutning á raforku til lýsingar á matjurtir en ekki stofnkostnað eins og tengigjöld. Þá þarf raforkunotkunin líka að ná ákveðnu magni til að uppfylla skilyrði um niðurgreiðslu á flutningi orkunnar. Í nýjum búvörusamningi garðyrkjubænda er þetta óbreytt en í nýjum rammasamningi ríksissjóðs og Bandasamtakan gæti leynst möguleiki enda er þar kveðið á um sérstök nýliðunarframlög.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakna, segir að enn sé eftir að útfæra hver skilyrðin verði fyrir því að fá slíka styrki. Þau hafi þó verið rædd við samningsgerðina: „Nýliðastuðningur er hugsaður almennt. Að þú hafir ekki verið bóndi og þegið greiðslu áður. Að þú sért með einhverjum hætti að koma nýr inn. Þá fáist ákveðin upphæð sem verði tengd heildarfjárfestingunni að ákveðnu marki,“ segir Sindri. Hann vill ekki fullyrða neitt um það hvort skilyrðin gætu opnað fyrir nýliðunarstyrki til skógarplöntustöðva sem hyggja á matjurtarækt.