Skógrækt ríkisins óskar eftir tilboðum í grisjun á tveimur svæðum á Suðurlandi. Um er að ræða annars vegar 3,2 ha greni- og furuskóg í Haukadal og hins vegar í 2,6 ha furuskóg í Þjórsárdalsskógi. Bjóða skal í hvort verkið um sig.

Nánari upplýsingar fást hjá Hreini Óskarssyni, skógarverði á Suðurlandi (899 1971 / hreinn[hjá]skogur.is) eða Jóhannesi Sigurðssyni, aðstoðarskógarverði (893 8889 / johannes[hjá]skogur.is). Tilboð skal senda á netfang skógarvarðar eða skila á skrifstofu Skógræktar ríkisins í Gunnarsholti, Hellu, fyrir 10. júní nk.  Tilboðin verða opnuð á sama stað degi seinna, þann 11. júní kl.13:00.

 

Verklýsing

Braathenslundur í Haukadal

Reiturinn sem grisja á er 3,2 hektarar og er í landi Skógræktar ríkisins í Haukadal, sjá nánar loftmynd sem fylgir samningi þessum. Er landið nokkuð slétt og í aflíðandi brekku mót suðri. Hafa allar útdráttarbrautir verið kvistaðar upp og merktar og öll tré sem fella á hafa verið uppkvistuð í rúmum þriðjungi svæðisins sem flýtir mjög fyrir verkinu.

Um er að ræða fellingu og afkvistun á sitkagreni og stafafuru sem notað verður í spæni, kurl og hjallaefni. Nánari upplýsingar um hæð og þéttleika trjáa má finna í excelskjali. Verktaki skal hefja grisjun eigi síðar en 15. júní 2009 og hafa lokið verkinu eigi seinna en 1. ágúst 2009.  Sektir fyrir seinkun á verklokum nema 5% lækkun á umsömdu verði fyrir hvern dag sem verklok tefjast.

 

Selfitar í Þjórsárdal

Reiturinn sem grisja á er 2,6 hektarar og er í landi Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal, sjá nánar loftmynd sem fylgir samningi þessum. Er landið flatt og auðvelt yfirferðar. Hefur reiturinn ekki verið grisjaður áður.

Um er að ræða fellingu og afkvistun á stafafuru sem notað verður í spæni og kurl. Nánari upplýsingar um hæð og þéttleika trjáa má finna í excelskjali. Verktaki skal hefja grisjun eigi síðar en 20. ágúst 2009 og hafa lokið verkinu eigi seinna en 15.september 2009.  Sektir fyrir seinkun á verklokum nema 5% lækkun á umsömdu verði fyrir hvern dag sem verklok tefjast.

 

Almenn verklýsing um grisjun:

Verktaki grisjar ofangreinda skóga samkvæmt góðri grisjunarvenju og samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu:

            A. Góð grisjunarvenja felur í sér eftirfarandi:

  • Kræklótt, skemmd, lágvaxin og/eða grönn tré eru frekar felld en beinvaxin, óskemmd, hávaxin og/eða sver tré eru látin standa eftir
  • Meðalþvermál trjáa skal vera meira eftir grisjun en fyrir og meðalhæð trjáa skal ekki vera lægri eftir grisjun er fyrir
  • Bil á milli eftirstandandi trjáa er sem jafnast
  • Greinastubbar eftir afkvistun eru ekki lengri en 1 cm
  • Toppur er sagaður af þar sem þvermál stofns er 4 cm
  • Ekki séu skemmdir á eftirstandandi trjám, sérstaklega á berki og rótum
  • Jarðvegsrask og röskun á gróðri og dýralífi sé sem minnst
  • Engin olía eða önnur mengandi efni berist í jarðveg eða vatn

B. Verktaki grisjar ofangreinda reiti þannig að eftir standi sá trjáfjöldi sem verkkaupi segir fyrir um skv. meðfylgjandi töflu.  Frávik frá uppgefnum þéttleika við úttekt má vera allt að 10%, hvort heldur sem er fyrir of-eða vangrisjun.

C. Verktaki fellir trén skv. skipulagi sem verkkaupi leggur upp og skal fella tré að útkeyrslubrautum svo hægt sé að ná þeim auðveldlega með krana og vagni. Lega útkeyrslubrauta kemur fram á meðfylgjandi korti.

D. Frágangur á svæðinu eftir grisjun skal vera þannig að:

  • Svæðið sé snyrtilegt, þar sé engin slysahætta og allir vegir og slóðar í jafngóðu ástandi og þegar verkið hófst
  • Stubbar séu ekki hærri en 10 cm
  • Lim og toppar liggi ekki eftir á vegum og stígum eða í lækjum
  • Allur nýtilegur viður sé hirtur úr skóginum liggi tilbúinn til útkeyrslu
  • Í skóginum séu engin hangandi tré og timburstaflar svo traustlega hlaðnir að engin hætta sé á að viður falli á fólk, tæki eða önnur verðmæti

Verktaki ber einn ábyrgð á tækjum sínum og starfsmönnum og skal hafa fullnægjandi tryggingar fyrir tjóni á tækjum sínum og slysum á starfsmönnum og uppfylla öll ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga er varða starfskjör, vinnu, hollustuhætti og umhverfismál

Verktaki skal tilkynna verkkaupa um upphafsdag grisjunarvinnu með a.m.k. tveggja daga fyrirvara. Verktaki skal tilkynna verkkaupa um verklok strax að loknu verki og boðar þá verkkaupi samningaaðila til úttektar á verkinu eins fljótt og auðið er. Úttekt skal vera í samræmi við lýsingu í útboðsgögnum og samningi þessum. Í úttektinni felast mælingar (þéttleiki og þvermál trjáa) á mæliflötum sem lagðir voru út áður en verkið hófst, sömu mælingar á öðrum stöðum völdum af handahófi innan grisjunarsvæðisins, athugun á breidd og ástandi brauta og mat á þáttum er varða grisjunarvenjur, frágang viðar og almennan frágang.

Reynist verkið ófullnægjandi samkvæmt kröfum í samningi þessum er verkkaupa heimilt að krefjast úrbóta af hálfu verktaka, verkkaupa að kostnaðarlausu, ellegar lægri greiðslu fyrir verkið en greinir í tilboði verktaka að því marki sem hér greinir:

  • Reynist þéttleiki eftirstandandi trjáa víkja meira en 10% frá því marki sem sett er skal lækka reikning um 1% fyrir hvert prósent umfram 10% frávik hvort heldur grisjað var of lítið eða of mikið.
  • Reynist barkarskemmdir á meira en 10% eftirstandandi trjáa skal lækka reikning um 1% fyrir hvert prósent umfram 10% markið.
  • Reynist meira en 2% felldra trjáa liggja eftir í skóginum telst viðarflutningi ekki lokið úr skóginum. Verkkaupi getur frestað greiðslu fyrir viðarflutningshluta verksins þar til verktaki hefur að fullu lokið viðarflutningi úr skóginum.

Gögn

:

Þjórsárdalur - mynd
Þjórsárdalur - gögn
Braathenslundur - mynd
Braathenslundur - gögn