Þessa dagana er unnið að grisjun stafafuru í Skarfanesi á Landi og því sigla starfsmenn Skógræktar ríkisins yfir Þjórsá á leiðinni í vinnuna. Skarfanes á Landi er eitt af starfssvæðum Skógræktar ríkisins og hefur verið í eigu stofnunarinnar síðan um 1940. Þar hefur vaxið upp gróskumikill skógur, aðallega í Lambhaganum og hafa lönd sem áður voru örfoka verið grædd upp í samvinnu við Landgræðslu ríkisins.

26102012-(13)26102012-(11)Skarfanes liggur nokkuð afskekkt og eru um 35 km akstur þangað frá næstu starfsstöð Skógræktarinnar sem er í Þjórsárdal og er vegurinn að stórum hluta grófur malarvegur. Hins vegar eru ekki nema 2,5 km í loftlínu yfir Þjórsá úr starfsstöðinni í Þjórsárdal. Til að spara sér aksturinn sigla starfsmenn Skógræktarinnar í Þjórsárdal þessa dagana á gúmmíbát yfir Þjórsánna með keðjusagir sínar og útbúnað. Meðfylgjandi myndir sýna þessa nýbreytni í ferðamáta skógarmanna og ekki spillir útsýnið á leiðinni fyrir þessa góðviðrisdaga.

Myndir og texti: Ingvar Örn Arnarson og Hreinn Óskarsson