Í síðustu viku fór sunnlenskt skógarfólk í vísitasíu um Vestur-Skaftafellssýslu. Eitt af verkefnum fólksins var að grisja skógarreit sem stendur öllum að óvörum í miðju Eldhrauni. Guðmundur Sveinsson gróðursetti plöntur á þessum stað árið 1974. Reiturinn hefur vaxið með ágætum en lá undir skemmdum vegna þess hversu þéttur hann var orðinn. Hæstu trén í reitnum eru um 8 metrar og taka væntanlega vel við sér eftir grisjunina. Helstu trjátegundir í reitnum eru stafafura, sitkagreni, lerki og birki, og umhverfis gamla reitinn hefur á síðustu árum verið bætt við ýmsum tegundum, s.s. evrópulerki. Stafafura er farin að sá sér út fyrir reitinn.

Fáum hefði dottið í hug að tré myndu vaxa í mosaþembu í miðju Eldhrauni, nema þá finnska prófessornum Gustav Sirén sem heimsótti Ísland árið 1974 og ferðaðist meðal annars um Eldraun. Þar gekk karlinn upp á hraunhól í sól og hita, breiddi út faðminn mót hrauninu og sagði hin fleygu orð: ,,Perfect forest conditions" (úttalast: berfegt forest gondisjon).